Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
26. ágúst 2017

„Engin merki um Elliðaárstofn í Djúpinu“

Laxastofnarnir í ánum sem liggja í Ísafjarðardjúp eru einstakir og eiga sér um 10 þúsund ára sögu. Þetta segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar. Verið er að rannsaka hvort lax í Breiðdalsá í Breiðdalsvík er innblandaður. Geldlaxeldi er enn á tilraunastigi í Noregi og ólíklegt að það leysi eldi á frjóum laxi af hólmi í bráð. Eldi á ófrjóum laxi hefur þar verið gagnrýnt út frá dýraverndarsjónarmiðum. Norðmenn leggja meiri áherslu á aðrar leiðir til að vernda villta stofna. 

„Við höfum gert rannsóknir á þessum ám í Djúpinu, bæði Langadalsá og Laugardalsá, og það kemur í ljós að þarna eru sérstakir stofnar. Þeir eru skyldir stofnum af Norðurlandi en eru um margt sérstakir og það sem eykur verðgildi þeirra er að þeir eru langt frá öðrum laxastofnum og hafa þar af leiðandi ákveðna sérstöðu,“ segir Sigurður. 

 

En hvað um sleppingar úr Elliðaánum á fjórða áratugnum? Hafa þær ekki haft áhrif á erfðamengi þessara laxa í ánum sem renna í Djúpið? 

 

„Rannsóknir okkar benda til þess að svo sé ekki. Meira að segja Laugardalsáin sem var nú ræktuð með gerð laxastiga í Einarsfoss. Rannsóknir benda til þess að laxinn þar sé náskyldur laxi í Langadalsá. Við sjáum engin merki um Elliðaárstofninn þar.“ 

 

Lítil þekking og árangurinn eftir því

Illu heilli hafi menn ekki haft mikla þekkingu á ræktun þegar þeir byrjuðu að sleppa seiðum úr öðrum ám í árnar. Árangurinn hafi verið eftir því. „Sennilega hefur þetta verið lítil innblöndun og farið aftur út úr stofninum.“

 

„Til hvers að loka djúpinu til að vernda blandaða stofna?“

Gunnar Davíðsson, deildarstjóri hjá atvinnuþróunardeild fylkiskommúnunnar í Troms-fylki, er vel inni í fiskeldismálum í Noregi. Hann er jafnframt Dýrfirðingur og bróðir framkvæmdastjóra Landsambands fiskeldisstöðva. Gunnar segist ekki vita betur en að stofnarnir hafi orðið til við blöndun stofna alls staðar að af landinu á síðustu áratugum. „Það eru nú ekki svo mörg ár síðan þessar ár voru gerðar laxgengar með því að sprengja burtu fossa og gera þær lífvænlegar. Það voru engir laxastofnar í þessum ám sem nefndar eru í skýrslunni, ekki svo ég viti.“

 

Þessar upplýsingar séu til dæmis þekktar úr skýrslum veiðifélaganna. Hann sér ekki hvers vegna þurfi að loka öllu Djúpinu fyrir eldi til að vernda blandaða stofna. Ef það verður stórslys og stofnar hverfa ætti að vera auðvelt að endurnýja þá með því að sleppa aftur í árnar, segir hann. 

 

Tíu þúsund ára saga

Sigurður segir rétt að Laugardalsá hafi ekki verið laxgeng áður en stigi var byggður, öðru máli gegni um Langadalsá og Hvannadalsá. Þá segi veiðitölur ekki allt um magn fiskjar í vatni.

 

Hann segir að flestir íslenskir laxastofnar eigi sér um tíu þúsund ára sögu, hafi orðið til þegar firðirnir opnuðust eftir síðustu ísöld. Það eigi líka við um laxinn í Langadalsá.

 

Innblöndun kalli á vernd, frekar en eldi

Hafrannsóknastofnun er nú að rannsaka erfðaefni lax í Breiðdalsá í Breiðdalsvík. Sigurður segir að þar hafi, líkt og í Djúpinu, verið sleppt seiðum úr öðrum ám, aðallega á Norðurlandi. Síðastliðin ár hafi einungis verið notuð seiði úr stofni árinnar. 

 

„Þekking okkar á Breiðdalsá er þannig að við verðum að líta svo á að þar sé náttúrulegur laxastofn þar til annað kemur í ljós.“

 

Ef innblöndun í Breiðdalsá reynist mikil, laxinn þegar erfðamengaður, gefur það þá tilefni til þess að breyta áhættumati og leyfa frekara eldi á Austfjörðum?

 

„Þetta get ég ekki sagt á þessari stundu, ef þarna er stofn í vandræðum ættu fyrstu viðbrögð að vera að styrkja hann og bæta hann og koma honum í lag á ný.“ Það ætti ekki að útsetja hann fyrir frekari mengun.  

 

Íslenski stofninn sérstakur

Þegar stofn Atlantshafslaxins byrjaði að greinast, skiptist hann fyrst í Evrópugrein og Ameríkugrein. Næst klauf íslenski laxinn sig frá Evrópugreininni og greindist svo frekar eftir landsvæðum. „Á Íslandi er því mjög sérstakur hópur laxa,“ segir Sigurður. 

 

Það er sérstakur stofn í hverri á, stundum fleiri en einn. Greiningar Hafró sýna að vestfirski laxinn myndar sérstakan erfðahóp.

 

Hver stofn hefur aðlagað sig að umhverfi sínu. Laxinn sem gengur í Elliðaárnar hrygnir til dæmis í desember en fyrir norðan, þar sem er kaldara, hrygnir lax í lok september og fram í október.

 

Eiginleikar eldislaxa óhentugir

Í nýrri skýrslu sem Hafró birti í dag kemur fram að vísbendingar um erfðablöndun við norskan eldislax sé að finna í sex ám á  Vestfjörðum, skýr merki voru um blöndun í Botnsá í Tálknafirði og Sunnudalsá í Trostansfirði. 
 
Íslenskir laxastofnar eru að sögn Sigurðar ólíkir norskum laxi, leiðir þeirra skildu snemma. Íslenski laxinn er enn ólíkari norskum eldislaxi. Í eldinu eru ræktaðir eiginleikar sem henta ekki endilega úti í náttúrunni; hraður vöxur og seinn kynþroski. Óæskilegt sé að slíkur lax blandist villtum íslenskum stofnum. „Ef blöndun er langvinn og mikil ertu kominn með mun minna hæfan stofn í ánni og kannski í versta tilfelli stofn sem alls ekki þrífst.“

 

En í ljósi sögunnar, sleppingar hafa hingað til ekki haft áhrif á þennan stofn. Er þá líklegt að eldislaxar hafi mikil áhrif? 

 

„Jú, því fjarskyldari sem fiskurinn er, þeim mun líklegra er að áhrifin verði meiri. Í fyrsta lagi var notaður íslenskur stofn sem var skyldari og í annan stað voru þetta oft litlar sleppingar og gerðar af vankunnáttu.“

 

Er geldlaxinn nýja vonarstjarnan? 

Áhættumat Hafró gerir ráð fyrir að hægt verði að ala 71 þúsund tonn af frjóum laxi hér við land. Til viðbótar mætti ala hér 61 þúsund tonn af geldlaxi og fullnýta þannig burðarþol fjarðanna. Starfshópur sjávarútvegsráðherra vill efla tilraunir með eldi á ófrjóum laxi og veita þeim fyrirtækjum sem velja að ala geldlax tímabundna undanþágu frá greiðslu auðlindagjalds.

 

Deilt um hvort eldið samræmist dýraverndarsjónarmiðum

Gefin hafa verið út tilraunaleyfi vegna eldis á ófrjóum laxi í Noregi. Gunnar segir að sumir bindi vonir við að geldlaxinn leysi frjóan lax af hólmi. Aðrir hafi minni trú á því. Afföll á geldlaxi séu stærri, hann sé viðkvæmari fyrir sjúkdómum og vansköpun tíðari. „Þeir hafa lent í því að þurfa að slátra úr öllu leyfinu í rauninni.“

 

Deilt hefur verið um það í Noregi hvort eldi á geldlaxi eigi rétt á sér út frá dýraverndarsjónarmiðum. Matvælaeftirlitið í Troms-fylki hefur lagst gegn því að tilraunaleyfi til þess séu gefin út þar. „En höfuðstöðvarnar eða aðalstjórnstöð Matvælastofnunar hefur snúið þeim ákvörðunum og leyft þetta áfram í því skyni að komast fyrir þau vandamál sem hafa verið.“

 

Púðrið aðallega í annað

Norðmenn eru þó ekki að setja allt púðrið í geldlax. Heldur horfa til þess að þróa betri aðferðir við að ala frjóan lax. „Fjármagn í geldlaxinn er bara einhver örfá prósent miðað við það sem notað er í þróunarvinnu og rannsóknir á nýjum eldisaðferðum.“

 

Geldlaxalausn á næstu 3-5 árum

Þeir horfa til möguleika í úthafseldi, landeldi og í því að þróa kvíar sem eru styrktar sérstaklega til að varna lúsasmiti og fyrirbyggja strok. Gunnar telur að Íslendingar ættu að bíða með geldlaxeldi, leyfa Norðmönnum að finna lausn á vandamálunum fyrst. Hún finnist hugsanlega á næstu þremur til fimm árum. Sigurður vonar að eldi á þessum fiski geti hafist hér eftir nokkur ár, horft sé til nýrrar tækni við að gera fiskinn ófrjóan sem ekki veldur honum skaða. „Þá er ekki verið að búa til þrílitna fisk heldur tvílitna og þessar aðferðir sem eru nú í þróun eru aðferðir til að slökkva á tjáningu gena sem stýra kynþroska. Þetta er ekki erfðabreytt lífvera heldur eru notuð ákveðin efni sem eru skaðlaus og gera fiskinn ófrjóan,“ segir Sigurður. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is