Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
12. ágúst 2017

Deildu um hættu á erfðablöndun

Fiskeldi getur skilað Vestfirðingum milljörðum, segir stjórnarformaður Landssambands fiskeldisstöðva. Forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra vill að farið verði að öllu með gát.
 

Fiskeldi á Vestfjörðum var til umræðu í Vikulokunum á Rás 1 í dag, og tekist á um nýlega skýrslu Hafrannsóknastofnunar um burðarþol Ísjafjarðardjúps. 

 

Einar K. Guðfinnsson, stjórnarformaður Landssambands fiskeldisstöðva og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sagði skýrsluna vera góðan grunn að því að breyta umræðunni. „Það sem þessi skýrsla er auðvitað að segja okkur er það að þetta viðfangsefni sem við erum að glíma við, þessi hætta á erfðablöndun er staðbundið vandamál. Þá eigum við auðvitað að beina sjónum okkar að þeim tilteknu ám sem þarna er um að ræða.“

 

Þessu andmælti Bjarni Jónsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra og varaþingmaður Vinstri-grænna. Þetta væri ekki jafn afdráttarlaust og Einar héldi fram. „Það kemur mest af þeim fram í nærliggjandi ám en eftir því sem þú ert með meira magn í eldinu þeim mun líklegra er og meira af fiski sem er að fara lengra.“ Auk þess skipti máli hvernig eldinu væri háttað og hvernig það félli að lífríkinu í nágrenni þess.

 

Bjarni sagðist hafa skilning á viðhorfum þeirra Vestfirðinga sem krefðust aukinna atvinnutækifæra. „Þeir eru búnir að búa við það að þrátt fyrir að hafa átt jafnvel ráðherra og fólk sem ætti að berjast fyrir það á þingi og slíkt, þá eru þau búin að vera að horfa upp á það að aflaheimildirnar hafa verið að hverfa.“

 

„30 þúsund tonn. Þetta eru 25 milljarðar. Þetta eru kannski 600 bein og ótengd störf að mati Hafrannsóknarstofnunar. Þetta getur þýtt fyrir sveitarfélögin við Djúp hálfan milljarð í tekjur á ári,“ sagði Einar K. um möguleg áhrif fiskeldis í Ísafjarðardjúpi og kvað eðlilegt að byggja upp eldi, jafnvel þó gerðar væru meiri kröfur til þess en eldis erlendis.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is