Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
1. ágúst 2017

Sleppti 160 þúsund laxaseiðum í sjóinn

Útgerðarmaður á Tálknafirði segist hafa sleppt hundrað og sextíu þúsund laxaseiðum af norskum uppruna í Tálknafjörð árið 2002. Eftirlitsstofunum virðist ekki hafa verið kunnugt um atvikið en maðurinn segist koma fram með upplýsingarnar nú í ljósi bráðabirgðaniðurstaðna rannsóknar Hafrannsóknastofnunar á erfðablöndun laxastofna á svæðinu.

 

  

Sleppti laxaseiðum í sjóinn vegna fjárskorts

Fréttastofa Stöðvar tvö greindi frá atvikinu í gær. Maðurinn heitir Níels Ársælsson og fyrirtæki hans Eyrar-Fiskeldi. Seiðin voru keypt í ágúst 2001 og til stóð að fyrirtækið myndi ala seiðin upp og setja í sjókvíar í júní 2002. Slátraður fiskur gæti numið sex til sjö hundruð tonnum. Fyrirætlanirnar urðu að engu þar sem norskur samstarfsaðili fyrirtækisins varð gjaldþrota. Þá tókst Eyrum-Fiskeldi ekki að fá lánsfjármagn eða hlutafé fyrir eldiskvíum og fóðri og eftir þriggja mánaða svelti seiðanna ákvað Níels að hleypa þeim fram í sjó við Gileyri í Tálknafirði í gegnum botnlokur eldiskerjanna frekar en að láta þau drepast úr hungri. Meðalþyngd laxaseiðanna var á bilinu 350-600 grömm. Níels vildi ekki veita fréttastofu viðtal en segir að sleppingin hafi verið afarkostur.

 

Segir frá atvikinu vegna rannsóknar Hafró

Níels segist koma fram með þessar upplýsingar nú vegna rannsóknar Hafrannsóknastofnunar á erfðablöndun laxa á svæðinu en bráðabirgðaniðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingar um að strokulaxar af norskum eldisuppruna hafi sloppið úr eldiskvíum, hrygnt og blandast villtum löxum í nágrenni eldissvæða. Höfundar óbirtrar rannsóknar leiða að því líkum að þar séu komin fram afkvæmi strokulaxa úr slysasleppingu í Patreksfirði í nóvember 2013. Níels efast um ályktanir Hafrannsóknastofnunar og vill að laxeldisfyrirtækin á svæðinu njóti sannmælis, því komi hann fram með þessar upplýsingar nú. 

 

Vissu ekki af atvikinu

Eftirlitsstofunum virðist ekki hafa verið kunnugt um sleppinguna en samkvæmt lögum um fiskeldi eru ströng refsiákvæði um sleppingu sem þessa. Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri lax- og silungaveiðisviðs hjá Fiskistofu, segir að þótt brotið sér skýrt þá sé hann hræddur um að það gæti verið fyrnt. Fiskeldisfyrirtækjum ber að tilkynna Fiskistofu um sleppingar og er hlutverk Fiskistofu að bregðast við sleppingum. Guðni segir það þó ómögulegt í þessu tilviki þar svo langt er um liðið. Hann telur þó mikilvægt að fá nákvæmar upplýsingar um atvikið. Í ljósi nánari upplýsinga geti verið tilefni til að skoða erfðasamsetningu laxa mjög rækilega og fara í ítarlegar rannsóknir á því hvort að eldisfiskur hafi mögulega borist til annarra landshluta en Vestfjarða.

 

Lax með eldiseinkenni hefur veiðst 

Guðni Guðbergsson, forstöðumaður ferskvatnslífríkis hjá Hafrannsóknastofnun tekur undir með Guðna. Hann segir mikilvægt að fá upplýsingar um atvikið og að skoða nánar erfðasamsetningu laxa. Hann segir atvikið kalla á bæði meira eftirlit og skýrari kröfu um að menn segi frá. Guðni segir ljóst að lax með eldiseinkenni hafi bæði veiðst í Patreksfirði og í Mjólká í Arnarfirði, lax sem hefur sloppið úr kvíum.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is