Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
21. júlí 2017

Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi

Í nýrri skýrslu Hafrannsóknarstofnunnar um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi kemur fram að "ástand íslenskra laxastofna er í dag mjög gott að því leyti að í þeim greinist nánast engin erfðablöndun úr eldisfiski. Tillögur Hafrannsóknastofnunar byggja á skynsamlegri varúðarnálgun varðandi uppbyggingu laxeldis án þess að okkar náttúrulegu laxastofnar hljóti skaða af".

 

Samkvæmt útreikningum áhættumatslíkansins var almennt gert ráð fyrir lítilli innblöndun í flestar ár en Laugardalsá, Hvannadalsá og Langadalsá í Ísafjarðardjúpi, ásamt Breiðdalsá í Breiðdal virtust allar í talsverðri hættu vegna innblöndunar eldisfisks. Er það niðurstaða áhættumats að lagt er til að "ekki verði leyft eldi í Ísafjarðardjúpi vegna mikilla neikvæðra áhrifa á ár í Djúpinu. Af sömu ástæðum er lagt til að eldi verði ekki aukið í Berufirði og lagst gegn eldi í Stöðvarfirði vegna nálægðar við Breiðdalsá".

 

"Niðurstöður matsins eru því að ásættanlegt sé að leyfa allt að 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land. Þar af 50.000 tonn á Vestfjörðum og 21.000 tonn á Austfjörðum. Hér er um að ræða sjöföldun á núverandi ársframleiðslu í íslensku laxeldi sem er um 10.000 tonn.

 

Þessu til viðbótar er unnt að ala ófrjóan lax. Auka þarf rannsóknir og tilraunir með ófrjóan lax á Íslandi við þær aðstæður sem hér eru. Þetta verði gert í samvinnu við erlenda rannsóknaraðila og eldisfyrirtækin í landinu. Í samræmi við framangreint er óhætt að ala auk 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land, allt að 61.000 tonn af ófrjóum laxi miðað við núverandi burðarþolsmat 34 fyrir þessi svæði. Eldi á ófrjóum laxi á Vestfjörðum yrði því allt að 30.000 tonnum til viðbótar við 50.000 tonna framleiðslu á frjóum laxi og á Austfjörðum yrði eldi á ófrjóum laxi 31.000 tonn til viðbótar við framleiðslu á 21.000 tonnum af frjóum laxi. Aðrir þættir geta þó takmarkað umfang eldisins eins og endurskoðað burðarþol, óæskileg áhrif laxalúsar, stærð heppilegra eldissvæða og ef vart verður við óæskileg áhrif á hrygningu eða uppeldi nytjastofna sjávar (þorskur, ýsa, rækja og fleiri tegundir)."

 

Þessar upplýsingar er að finna í skýrslu Haf- og vatnsrannsókna. Hér fyrir neðan er hægt að sækja viðkomandi skýrslu. Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi.