Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
20. júlí 2017

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 19. júlí síðastliðinn. Eftir veiði síðustu viku er Þverá og Kjarará enn efst á listanum og veiðin komin í 1238 laxa. Veiðin síðastliðna viku var 237 laxar. Ef veiðin í Þverá og Kjarará er borin saman við svipaðan tíma í fyrra (20.07.16) þá höfðu alls veiðst 1153 laxar og veiðin er því orðin 85 löxum meiri núna. Í öðru sæti er Norðurá sem nálgast 1000 laxa markið en þar er veiðin komin í alls 966 laxa en vikuveiðin var 172 laxar. Veiðin í Norðurá er orðin 86 löxum meiri en á svipuðum tíma í fyrra. Í þriðja sæti er Ytri-Rangá með 902 laxa en vikuveiðin var 322 laxar og ljóst hún mun fara yfir 1000 laxa markið á næstu dögum.

Villtur lax ©Sumarliði Óskarsson

 

Ekki hafa komið tölur úr öllum ám en það stendur til bóta og verður væntanlega komið á sinn stað á morgun. Veiðin í Blöndu gengur vel en þar er veiðin komin í 745 laxa en vikuveiðin var 231 laxar. Veiðin í Langá er komin í 731 laxa - vikuveiði 199 laxar og veiðin orðin 108 löxum meiri en á svipuðum tíma í fyrra. Haffjarðará er komin í alls 547 laxar - vikuveiði 127 laxar. Einnig má geta þess að veiðin í  Laxá á Ásum gengur vel en þar hafa veiðst 375 laxar - vikuveiðin 133 laxar. Veiðin á svipuðum tíma í fyrra var 225 laxar og veiðin núna orðin 150 löxum meiri.       

 

Skilyrði til veiða hafa víðasthvar verið ágæt og veiði gengið ágætlega. Eitthvað virðist smálaxinn vera byrjaður að láta sjá sig í meira mæli í sumum vatnakerfum og óskandi að hann fari að skila sér í meira mæli. Við sjáum hvað setur.

 

Í ljósi þess að fiskeldi í eldiskvíum fer vaxandi hér við land og samfara er aukin hætta á mögulegum slysasleppingum á eldisfisk þá eru veiðimenn eru hvattir til að tilkynna ef þeir veiða eldisfisk og senda eldisfisk sem veiðist til greiningar. Slíkt er mikilvægt framlag til vöktunar á vatnakerfum landsins og veitir afar mikilvægar upplýsingar.

 

Hér eru leiðbeiningar til að þekkja eldislaxa í veiðiám.

 

Hér er hægt að kynna sér samanburð á villtum lax og eldislax.

 

Landssamband veiðifélaga hefur um áratug fylgst með veiði í 25 ám. Veiðitölum er safnað hvert miðvikudagskvöld og eru þær birtar á heimasíðu Lv, angling.is og jafnframt á síðu 322 á textavarpinu. Velkomið er að senda veiðitölur í tölvupóst bjorn@angling.is eða senda sms í síma 852-3398. Gott er að láta stangarfjölda fylgja með.