Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
2. júlí 2017

Mokstri úr Andakílsá hætt og lax beðið

Þess er nú beðið að lax gangi upp í Andakílsá í Skorradalshreppi. Þar varð geysilegt tjón í vor þegar starfsmenn Orku náttúrunnar hleyptu úr lóni við Andakílsvirkjun þannig að mörg þúsund rúmmetrar af aur flæddu ofan í ána. Fyrir helgi var mokað með gröfum upp úr henni.  

Aur úr inntakslóni virkjunar í Andakílsá. Skjáskot ©Ruv.is

 

Moksturinn gekk nokkuð vel og náðist talsvert upp af setefni segir Unnsteinn Snorri Snorrason formaður Veiðifélags Andakílsár:

 

„En hins vegar ekki alveg búið að nást að hreinsa hylji endanlega. Það er mikið eftir af efni í ánni ennþá og erfitt að sjá hvort hyljirnir, bestu veiðistaðirnir, séu orðnir eins og þeir eiga að vera.“

 

Nú er laxinn við það að ganga upp í ána?

 

„Já, nú er framkvæmdum lokið og nú er bara beðið eftir að komi í ána og svo fylgjumst við með hvað hann gerir þar. Og svo þegar að líður á sumarið þá verður tekinn fiskur í klak.“

 

Er þetta mikill munur á umhverfi laxins nú en fyrir ári?

 

„Já, það er það gífurlega mikill og það er ennþá eftir ofan í hyljum þar sem hann vill liggja. Hann vill liggja á dýpi og skjóli. Og þar er líka botninn breyttur. Það er bæði sandsetefni og leirefni sem er þarna í hyljunum.“

 

Stangveiðifélag Reykjavíkur er með ána á leigu og höfðu veiðileyfi í ána þegar verið seld en fljótlega eftir að tjónið varð var ákveðið að ekki yrði veitt í ánni í sumar.

 

„Þeir eru búnir að endurgreiða þau leyfi sem þeir voru búnir að selja. Og við einbeitum okkur bara að því að ná fiski í klak úr ánni í sumar og jafnframt að skilja eftir fisk til þess að hann geti hrygnt í ána.“

 

Endanlegt tjón hefur ekki verið metið og það tekur langan tíma segir Unnsteinn:

 

„Það má bara alveg segja það að Orka náttúrunnar hafi staðið sig vel í þessu hreinsunarstarfi, sinnt því afar vel. Framundan er síðan í samstarfi við Orku náttúrunnar að gera áætlun um uppeldi á ánni til næstu ára.“ 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is