Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
27. júní 2017

Vilja tvo firði eldislausa og gjald á kvíar

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar vill að sérstök gjöld verði lögð á mannvirki í sjó svo sem eldiskvíar. Þetta kemur fram í stefnu sveitarfélagsins í fiskeldismálum en þar leggst sveitarfélagið gegn öllu eldi í Viðfirði og Hellisfirði. Þó mikil uppbygging sé fram undan í fiskeldi er ekkert skipulag í gildi úti á fjörðum og ekki einu sinni komið á hreint hvernig eigi að gera slíkt skipulag. 

Fiskeldi fyrst, skipulag svo

Laxar fiskeldi og Fiskeldi Austfjarða áforma umfangsmikið eldi í nokkrum fjörðum Fjarðabyggðar, Mjóafirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og í Norðfjarðarflóa. Laxar fiskeldi hefur síðustu daga gert kvíar tilbúnar fyrir komu fyrstu laxaseiðanna til Reyðarfjarðar. Tæplega milljón seiði verða flutt þangað í nokkrum ferðum með brunnbáti frá Þorlákshöfn. Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir að uppbygging í fiskeldi sé mjög hröð. „Við hefðum og ríkið þurft að vera búin að velta þessu betur fyrir okkur skipulagslega séð. Það er til dæmis ekki í lögum enn þá nákvæmlega hvernig á að standa að skipulagningu fjarða,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

 

Hellisfjörður og Viðfjörður verði lausir við eldi

Stjórnvöld áforma að koma á sérstökum svæðisráðum sem fari með skipulagsvald á hafsvæðum úti á fjörðum en bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð vilja sjálf fá að skipuleggja firðina. Í fiskeldisstefnunni segir að sveitarfélagið ætlist til þess að fiskeldi verði bundið við firði sem eru í byggð og þar sem atvinnustarfsemi fari þegar fram. Ekki verði eldi í eyðifjörðunum Hellisfirði og Viðfirði. „Við viljum að þeir firðir verði friðaðir algjörlega fyrir fiskeldi. Þetta er náttúruparadís og við ætlum að nýta þá fyrst og fremst til ferðamennsku,“ segir Páll.

 

Óvíst hvað verður um umsóknir

Fiskeldi Austfjarða hefur þegar sótt um eldisleyfi í bæði Viðfirði og Hellisfirði og segir Páll að tíminn verði að leiða í ljós hvað verði um þær umsóknir. „En við leggjum mikla áherslu á gott samstarf sveitarfélagsins og þessara fyrirtækja. Og ég er viss um að þau hafi skilning á sjónarmiðum íbúa hér.“

 

Í fiskeldisstefnu Fjarðabyggðar er mælst til þess að stjórnvöld leggi gjald á fiskeldi líkt og gert er í Noregi þar sem stór hluti gjaldsins rennur til sveitarfélaga.  

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is