Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
22. júní 2017

Nýjar veiðitölur

Nú eru laxveiðiárnar að opna fyrir veiði hver af annari og fjölgar nú hratt í þeim hópi 25 vatnakerfa sem Landssamband veiðifélaga hefur fylgst með í rúman áratug. Við fáum jafnframt sendar tölur frá fleiri svæðum sem við birtum hér á listanum. Veiðitölum er safnað hvert miðvikudagskvöld og eru þær birtar á heimasíðu Lv, angling.is og jafnframt á síðu 322 á textavarpinu. Tölur hafa borist úr flestum þeim ám sem veiði hefur hafist og gefa tölur ástæðu til bjartsýni fyrir komandi veiðitímabil enda fer veiði vel af stað og lofar góðu. Þess má geta að þær veiðitölurtölur sem ekki hafa borist munu vonandi skila sér fljótlega og uppfærist listinn í kjölfarið.

Veiðin í ám sem opnuðu einna fyrst, og eru á listanum, gengur vel. Þverá og Kjarará er komin í 256 laxa en alls veiddust 162 laxar sl. viku. Norðurá í Borgarfirði er skammt undan en hún er komin í alls 233 laxa og bætir við sig 103 löxum á einni viku. Blanda er komin í 126 laxa en þar veiddust alls 60 laxar sl. viku.

 

Miðfjarðará opnaði 15 júní og er veiðin komin í 170 laxa sem er meiri veiði en á svipuðum tíma í fyrra (22 júní) en þá var veiðin alls 163 laxar.

 

Haffjarðará opnaði 17 júní og fer veiðin vel af stað en hún er komin í 76 laxa.

 

Ytri-Rangá opnaði 20 júní og hafa veiðst 45 laxar á þeim tveimur dögum sem hafa liðið frá opnun.

 

Langá á mýrum opnaði 21 júní og hafa veiðst 38 laxar á þeim eina degi sem hún hefur verið opin og lofar það góðu.

 

Víðidalsá opnaði 20 júní og alls hafa veiðst 37 laxar á tveimur dögum.

 

Laxá í Kjós opnaði 19 júní og þar hafa veiðst alls 31 laxar.

 

Laxá í Leirársveit opnaði 17 júní og hafa veiðst alls 27 laxar.

 

Vatnsdalsá opnaði 20 júní og hafa 16 laxar veiðst.

 

Fnjóská opnaði 17 júní og hafa veiðst 4 laxar.

 

Veiðin í Urriðafossi í Þjórsá gengur mjög vel en þar hafa alls veiðst 305 laxar á tvær stangir. Eins og áður hefur verið skrifað er um áhugavert samstarfsverkefni landeiganda og Icelandic Outfitters að ræða. Það er ávallt ánægjulegt að sjá ný veiðisvæði verða til og fróðlegt að fylgjast með þessu verkefni.

 

Veiði fer almennt vel af stað þetta veiðitímabilið og mönnum ber saman um að það séu góðar heimtur úr hafi, bæði hvað stórlax og smálax varðar, lax hafi gengið snemma og fiskur sé afskaplega vel á sig kominn.

 

Vatnsbúskapur er víðast hvar með ágætum en ljóst að treysta þarf víða á úrkomu til að halda góðu vatni í ám þetta veiðitímabilið sökum þess að fremur lítill forði í föstu formi er til eftir liðinn vetur. Á móti kemur að grunnvatnsstaðan er víða góð og það hjálpar til. En hverju sem því líður þá er staðan núna víða góð.

 

Eins og fyrr segir þá munum við bæta tölum úr þeim ám sem upp á vantar þegar þær berast. Jafnframt eru fleiri vatnakerfi að opna þessa dagana og ljóst að samantekt veiðitalna verður fróðlegri í næstu samantekt að viku liðinni.