Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
22. júní 2017

Halda áfram með leyfisferli í Ísafjarðardjúpi

Fiskeldisfyrirtækið Háafell hyggst halda sínu striki þrátt fyrir ógildingu starfsleyfis fyrir fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. Verkefnastjóri Háafells býst við því að fá nýtt leyfi á næstunni. Lögmaður kærenda segir að nú sé stoppi sjókvíaeldis-æðið. 

Eldislax ©Sumarliði Óskarsson

Deilt um sjókvíaeldi

Leyfum fyrir sjókvíaeldi hefur fjölgað hratt síðustu ár og eru margfalt fleiri í umsóknarferli. Fyrirtæki keppa um að fá leyfin þar sem fiskeldi í sjó er takmörkuð auðlind. Margir binda vonir við að fiskeldið styrki byggðafestu en aðrir óttast mengun af eldinu og áhrif þess á íslenska laxastofna.

 

Segir úrskurðinn tímamótaúrskurð

Í gær felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi starfsleyfi Umhverfisstofnunar fyrir fiskeldi Háafells fyrir 6.800 tonna regnabogasilungseldi og 200 tonna þorskeldi í Ísafjarðardjúpi. „Ég get ekki séð annað en að þetta sé tímamótaúrskurður sem þýðir það að þetta eldisæði sem hefur dunið yfir landinu og færibandaafgreiðsla umsókna sé hér með stopp,“ segir Óttar Yngvason lögmaður kærenda leyfisins. Þá eru önnur leyfi fyrir sjókvíaeldi fyrir dómstólum og í kæruferli.

 

Skort gagnsæi á rökstuðningi

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála gerir athugasemd við að skort hafi gagnsæi í rökstudda ákvörðun Umhverfisstofnunar fyrir því að veita starfsleyfið, í ljósi álits Skipulagsstofnunar á umhverfismati. Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun að verklag hafi breyst frá því að starfsleyfið var gefið út. „Við höfum tekið með skýrari hætti afstöðu til mats á umhverfisáhrifum. Og það kemur fram í sérstökum kafla núna hver sú afstaða er og hvernig það er útfært í leyfunum hverju sinni.“

 

Þurfi að skýra hlutverk stofnana

Sigrún segir að helstu neikvæðu þættir umhverfismatsins séu þættir sem snúi að Matvælastofnun. Matvælastofnun gefur út rekstrarleyfi fyrir fiskeldi í sjó en hefur ekki gefið út rekstrarleyfi fyrir þessu eldi. Þá voru formgallar á starfsleyfinu sem Sigrún segir að bætt hafi verið úr. „Við bendum líka á það að það sé ástæða til að skýra hlutverk þeirra sem koma að löggjöfinni, skýra það aðeins betur.“

 

Hyggjast halda ótrauð áfram

Ekki er ljóst hver næstu skref verða fyrir þetta tiltekna leyfi. Fiskeldisfyrirtækið Háafell hyggst hins vegar halda sínu striki þótt úrskurðurinn hafi valdið því vonbrigðum. Verkefnastjóri fiskeldis bindur vonir við að úrskurðurinn geti skýrt línur um verklag. „Ef það verður hægt að taka tillit til þessa úrskurðar þá teljum við að við getum horft björt fram á veginn og teljum að við getum unnið markvist áfram með frekari leyfisveitingum í haust.“ 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is