Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
21. júní 2017

Úrskurður stöðvi færibandaútgáfu eldisleyfa

Niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að ógilda starfsleyfi fyrir fiskeldi í Ísafjarðardjúpi er áfangi fyrir náttúruvernd á Íslandi og kemur til með að stöðva færibandaútgáfu leyfa fyrir sjókvíaeldi. Þetta segir lögmaður kærenda. Formaður landssambands Fiskeldisstöðva segir úrskurðinn skýra verklagsreglur sem tefji vonandi síður fyrir leyfisveitingum. 

Annmarkar á starfsleyfi

Eigendur veiðiáa og veiðiréttinda í ám í Ísafjarðardjúpi og víðar kærðu starfsleyfisveitingu Umhverfisstofnunar fyrir 6800 tonna regnbogasilungseldi og 200 tonna þorskeldi fiskeldisins Háfells á þeim forsendum að lífríki áa og viltum laxa- og silungastofnum væri stefnt í hættu vegna lúsa, sjúkdóma og mengunar. Að mati úrksurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála var leyfisveitingin háð slíkum annmörkum að leyfið varð að ógilda. Óttar Yngvason, einn lögmanna kærenda, segir úrskurðinn vera stefnumótandi fyrir leyfisútgáfur bæði Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar. „Hann sýnir greinilega að starfshættir þessara stofnana, sérstaklega í þessu tilfelli Umhverfisstofnunar, eru ekki vandaðir stjórnsýsluhættir.“

 

Skýra þurfi hlutverk stofnana

Í úrskurðinum kemur fram að formgallar hafi verið á málsmeðferð Umhverfisstofnunar. Stofnunin segir að bætt hafi verið úr því síðan að starfsleyfið var gefið út og því ættu önnur starfsleyfi ekki að vera í uppnámi. Þá bendir Umhverfisstofnun á að helstu neikvæðu áhrif fiskeldisins falli undir verksvið Matvælastofnunar, sem gefa út rekstrarleyfi. Ekki hafi komið fram ábendingar um efnislega annmarka á starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Úrskurðurinn gefi því að mati Umhverfisstofnunar tilefni til að skýra nánar hlutverk einstakra stofnana hvað varðar fiskeldi og hefur stofnunin komið á framfæri ábendingum til nefndar um stefnumótun í fiskeldi sem starfar á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins.

 

Verði til þess að verklag verði skýrara

Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Landsambands fiskeldisstöðva, segir að þar sem úrskurðurinn lúti að formgöllum í leyfisveitingum og verklagi þá geti það skýrt verklagsreglur: „Þarna er verið að benda á ýmsa hluti sem á að vinna með öðrum hætti en gert hefur verið og þá hafa menn það einfaldlega fyrir framan sig og geta unnið í samræmi við það. Má þessu er verið að segja hvaða verklag verði hafa við í framtíðinni.“

 

Áfangi fyrir náttúruvernd

Einar vill ekki segja til um hvort að úrskurðinn tefji fyrir útgáfu frekari leyfa fyrir fiskeldi í sjó. Hann bindur þó vonir við að skýrari verklagsreglur tefji síður fyrir frekari leyfisveitingum. Hraði leyfisveitinga hefur verið gagnrýndur. Óttar telur að ógilding starfsleyfisins sé fordæmisgefandi. „Þetta er nánast áfangi fyrir náttúruvernd á Íslandi og þetta held ég mun stöðva færibandaútgáfu á öllum leyfum til sjókvíaeldis á landinu.“ 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is