Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
20. júní 2017

Samþykkja matsáætlun 10.000 tonna eldis

Skipulagsstofnun fer fram á að Arnarlax geri ítarlega grein fyrir öðrum kostum á laxeldi en eldi á frjóum laxi af norskum uppruna fyrir fyrirhugað 10 þúsund tonna eldi í Ísafjarðardjúpi þar sem óvissa ríki um áhrif eldisins. Þetta er meðal athugasemda Skipulagsstofnunar með samþykktri tillögu að matsáætlun fyrirtækisins. Tuttugu félög, stofnanir, landeigendur og sveitarfélög gáfu umsagnir eða athugsemdir um eldið sem er áformað á þremur eldissvæðum í Ísafjarðardjúpi.

 

Mat á áhrifum smitsjúkdóma og laxalúsar

Skipulagsstofnun fer fram á að í frummatskýrslu þurfi að leggja mat á áhrif eldisins á botndýralíf með tillititi til skipulags eldisins, uppsöfnunar næringarefna, súrefnisnotkunar og burðargetu svæðisins. Þá skuli gera grein fyrir spá um um líklega dreifingu smitsjúkdóma og laxalúsar frá eldissvæðunum og meta áhættu af þeim fyrir villta laxfiska í Djúpinu og á Vestfjörðum. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar var farið fram á að í frummatsskýrslu Arnarlax komi fram að lúsalyf verði ekki notuð vegna hættu á að hann skaði rækjustofninn í Ísafjarðardjúpi. Arnarlax segir í svörum sínum að fyrirtækið hyggist ekki nota kemísk aflúsunarlyf við eldið, það standist ekki vottun sem fyrirtækið hyggist fá. Skipulagsstofnun telur mikilvægt að í mati á umhverfisáhrfium verði sett fram spá um líklega smitleiðir lúsasmits og smitjúkdóma frá fyrirhuguðum eldissvæðum. Fisksjúkdómar og laxalús berist með straumum í yfiborði sjávar og því sé þekking á yfiborðsstraumum á eldisstað nauðsynleg til að hægt sé að meta líklegt rek lúsalirfa og smits frá eldinu.

 

Meta hættu á erfðablöndun

Skipulagsstofnun fer fram á að gerð verði grein fyrir hættunni á því að fiskur sleppi úr eldiskvíum og hverjar afleiðingar slíkra sleppinga geta orðið. Fiskistofa telur veiðihagsmuni í Ísafjarðardjúpi vera verulega og að ef óhöpp verði í sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi sé hætta á að fiskar kunni að berast í ár og hafa ósækileg áhrif á náttúrulega stofna. Í frummatsskýrslunni skal meta hættu á erfðablöndun villtra laxastofna vegna fyrirhugað laxeldis. Þá skuli gera ítarlega grein fyrir öryggisþáttum sem varða eldisbúnað og verklag til að varna því að fiskur sleppi úr eldiskvíum. Þá skuli gera grein fyrir útbreiðslu nytjastofna og leggja mat á áhrif fiskeldisins á veiðar og aðrar nytjar í Ísafjarðardjúpi, eins og kalkþörunga sem og leggja mat á áhrif framkvæmdarinnar á ferðaþjónustu og útivist.

 

Þá er lögð áhersla á að Arnarlax leggi fram áætlun um vöktun á umhverfisáhrifum eftir að starfsemin er hafin og viðbragðsáætlun ef niðurstöður vöktunar sýna fram á álag umfram sett viðmið.

 

Gera grein fyrir öðrum kostum

Skipulagsstofnun fer fram á að Arnarlax geri ítarlega grein fyrir öðrum framkvæmdakostum eins og geldfiski, í lokuðum kerfum eða á landi og beri saman með tilliti til umhverfiáhrifa. Óvissa ríki um áhrif laxeldis í sjó með laxi af norskum uppruna á villta laxastofna og áhrif eldisins á aðra umhverfisþætti. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is