Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
14. júní 2017

Nýjar veiðitölur

Nú hefur veiðin hafist í nokkrum ám en í næstu samantekt, miðvikudaginn 21 júní, munu töluvert fleiri ár hafa opnað og þá fáum við víðtækara yfirlit. En hvað varðar þau veiðisvæði sem hafa opnað þá hefur veiðin farið ágætlega af stað og eru viðmælendur okkar allir sammála um að laxar, bæði eins og tveggja ára, koma mjög vel haldnir úr hafi og beri greinilega vitni um gott fæðuframboð og góð skilyrði á dvalarslóðum. Það er töluvert af stórlax en jafnframt er eins árs laxinn mættur og er fremur snemma á ferðinni.

Norðurá er komin í 130 laxa og gengur veiði vel. Veiði hófst í Þverá og Kjarará á laugardaginn og hafa veiðst 94 laxar. Það er kominn lax vel frameftir og lofar þetta góðu. Blanda er komin í 66 laxa og bætir við sig 37 löxum á einni viku. Á nýju veiðisvæði, Urriðafoss í Þjórsá, er veiðin komin í 172 laxa en alls veiddust 91 laxar síðustu viku. Nánar fjallað um þetta veiðisvæði hér að neðan.

Nú fara árnar að opna hver af annari og eins og fyrr segir þá verður næsta samantekt víðtækari. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þær tölur verða en gott ástand laxa og heimtur lofa góðu. Við sjáum til hvað gerist.

Fyrir viku síðan var minnst á nýtt stangveiðisvæði en það er Urriðafoss í Þjórsá og er samstarfsverkefni landeigenda og Iceland Outfitters og hófst sem tilraunaverkefni í fyrra. Eins og áður var skrifað þá er markmið þessa samstarfsverkefnis er að fjölga stangveiðidögum, fækka netaveiðidögum og vonandi að lokum að breyta þessu fallega svæði þannig að þar yrði alfarið stangveiði. Nú hefur áfangi náðst í þeirri vegferð þar sem í fréttatilkynningu frá Icelandic Outfitters segir eftirfarandi „Iceland Outfitters og landeigendur að Urriðafossi hafa í sameiningu ákveðið að kippa upp aðal netalögnini í Urriðafossi sjálfum svo hægt sé að veiða þar á stöng en Urriðafoss stoppar nánast allan fisk sem gengur uppí Þjórsá. Þetta er svona eitt af fyrstu skrefum í að búa til og breyta þessu mikla veiðisvæði úr netaveiðisvæði í stangveiðiparadís. Enn verða lagnir bæði fyrir ofan og neðan Urriðafoss á umræddum dögum en okkar markmið er að láta stangveiðina taka við af netaveiðinni, sem líklega mun gerast innan fárra ára miðað við frábærar viðtökur og gang stangveiðinnar.“

Veiðin í Urriðafoss í Þjórsá er komin í 172 laxa en alls veiddust 91 laxar síðustu viku sem hlýtur að teljast afar góð veiði á tvær stangir. Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta verkefni þróast.