Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
7. júní 2017

Veiðitölur 2017

Í rúman áratug hefur Landssamband veiðifélaga  safnað vikulega veiðitölum úr 25 ám. Veiðitölum er safnað hvert miðvikudagskvöld og eru þær  birtar á heimasíðu LV, angling.is og jafnframt á síðu 322 á textavarpinu. Veiðin hefur farið vel af stað í þeim ám sem hafa opnað en þær eru Norðurá með 33 laxa (05.06), Blanda með 29 laxa, Straumarnir og Brennan í Hvítá, og Urriðafoss í Þjórsá með 81 laxa. Athygli vekur að stangveiði á svæðinu við Urriðafoss í Þjórsá er samstarfsverkefni landeigenda og Iceland Outfitters og hófst sem tilraunaverkefni í fyrra. Markmið þessa samstarfsverkefnis er að fjölga stangveiðidögum, fækka netaveiðidögum og vonandi að lokum að breyta þessu fallega svæði þannig að þar yrði alfarið stangveiði. Óhætt er að segja að þetta verkefni fari afar vel af stað þetta árið og hafa ber í huga að á þessu svæði eru einungis tvær stangir leyfðar og tíu laxa kvóti.

Villtur lax ©Sumarliði Óskarsson

 

Á næstu dögum og vikum opna ár hver af annarri og verður áhugavert að fylgjast með. Söfnun veiðitalna hefst miðvikudaginn 14 júní en þá hafa fleiri ár opnað.

 

Svo virðist sem laxinn sé fremur snemma á ferðinni, kemur vel haldinn úr hafi, og hefur sést í fjölmörgum vatnakerfum. Það er fullsnemmt að spá fyrir um þróun mála enda fjölmargt sem getur haft áhrif á veiði. Engu að síður gefur góð veiði í þeim ám sem hafa opnað og hve víða hefur sést til laxa tilefni til bjartsýni. Það er við hæfi enda langflestir veiðimenn annálaðir bjartsýnismenn og er það vel.

 

Þess má geta að við höfum átt mjög gott samstarf á liðnum árum við alla þá sem hafa liðsinnt okkur í þessari vikulegu söfnun veiðitalna. Án þeirra væri þetta ekki mögulegt og viljum við þakka kærlega fyrir þeirra framlag.

 

Athygli er vakin á því að þó við erum með 25 gagnagrunnsár, sem við söfnum vikulega gögnum frá, þá er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudags kvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari.

 

Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling eða hringja/senda sms í síma 852-3398