Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
3. júní 2017

Ráðleggur stöðvun á útgáfu leyfa

Erfðanefnd landbúnaðarins lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu íslenskra laxastofna vegna mögulegra áhrifa laxeldis í sjókvíum með stofni af erlendum uppruna.

Í áliti nefndarinnar, sem birt var í gær, segir að hún leggist gegn notkun á frjóum, norskum eldislaxi við strendur landsins þar sem eldið geti valdið óafturkræfum breytingum á erfðasamsetningu íslenskra laxastofna með ófyrirséðum afleiðingum.

 

Vilja afla meiri þekkingar

„Við teljum að það stefni í að það verði farið of geyst,“ segir Emma Eyþórsdóttir, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands og formaður nefndarinnar. „Við teljum að á þessum tímapunkti væri gott að reyna að staldra við og afla meiri þekkingar, fyrst og fremst um það hvað er í gangi. Til dæmis um það hvort komin er blöndun við innlenda laxastofna. Eins teljum við mikilvægt að þróa nýjar aðferðir sem koma í veg fyrir hættu á blöndun.“

 

Telja frekari útgáfu leyfa óforsvaranlega

Í álitinu segir einnig að frekari útgáfa leyfa til eldis á frjóum laxi af erlendum uppruna í sjókvíum sé óforsvaranleg miðað við stöðu leyfisveitinga og skorti á upplýsingum um áhrif eldisins á villta laxastofna í íslenskum ám. Nefndin ráðleggur stjórnvöldum að koma í veg fyrir alla frekari útgáfu leyfa til sjókvíaeldis á laxi, þar á meðal þá tugi þúsunda tonna sem komin eru í formleg umsóknarferli. Þá ráðleggur nefndin vöktun á erfðablöndun og hlutdeild eldislaxa í laxám á og við fiskeldissvæði.

 

Umsóknir fyrir allt að 150.000 tonna framleiðslu 

Árið 2013 var framleiðsla á eldislaxi um 3.000 tonn. Árið 2016 var ársframleiðslan 8.400 tonn, að því er fram kemur í áliti nefndarinnar. Þar segir að starfsleyfi hafi verið gefin út fyrir rúmlega 40.000 tonna eldi og að í farvatninu séu umsóknir fyrir allt að 150.000 tonna framleiðslu. Því sé full ástæða til að staldra við og afla nánari þekkingar á mögulegum afleiðingum áður en leyfi er gefið fyrir margfaldri aukningu eldis í sjókvíum.

Hlutverk Erfðanefndar landbúnaðarins er að veita stjórnvöldum ráðgjöf, þar á meðal um sjálfbæra nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is