Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
30. maí 2017

Áhrifa tjónsins í Andakílsá mun gæta næstu ár

Ljóst er að tjónið á Andakílsá er verulegt og áhrifa þess mun gæta næstu árin, segir fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. Mælst er til að enginn fiskur verði drepinn í ánni í sumar. Unnið er að aðgerðaráætlun til að reyna að hraða endurlífgun árinnar.
Aur úr inntakslóni virkjunar í Andakílsá. Skjáskot ©Ruv.is

Starfsmenn Orku náttúrunnar tæmdu inntakslón Andakílsvirkjunar við mynni Skorradalsvatns 15. maí með þeim afleiðingum að aur og eðja úr lóninu flæddi niður ána. Að sögn Sigurðar Más Einarssonar fiskifræðings hjá Hafrannsóknastofnunar er talið að 4 til 5 þúsund rúmmetrar af seti hafi farið í fiskgengdarsvæði árinnar, en það jafngildi 8 til 10 þúsund tonnum af aur. Hann segir að þetta hafi verið mjög stór atburður fyrir lífríki árinnar. Setið liggi  í þykkum lögum í ánni, þykkast efst og víða sé það 30 til 60 sentimetra þykkt og allir hyljir fullir af seti. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar kynntu hagsmunaaðilum niðurstöður rannsókna sinna í gær. Seiðatjón hefur orðið á nokkrum árgöngum. 

 

„Meðal annars seiðin sem eiga að koma upp úr mölinni núna úr hrygningu í fyrra, ég held að sá árgangur sé að mestu leyti farinn, eldri árgangar hafa orðið fyrir miklu höggi. Þannig að við erum að sjá fyrir okkur að það verði lægð í seiðaframleiðslu og veiði næstu árin út af þessu, þannig að okkar ráðgjöf er sú að það verði ekki drepinn fiskur í ánni í sumar heldur tekinn í klak að einhverju leyti,“ segir Sigurður Már.

 

Hann segir að sérfræðingar vinni að aðgerðaáætlun í því skyni að bæta ástandið í ánni og flýta endurlífgun hennar.

„Það tekur við núna endurreisnarfasi, en það er náttúrlega mjög lítil reynsla fyrir einhverri aðferðarfræði í slíku. Við verðum að kalla til straumfræðinga og svona farvegsfræðinga til að hjálpa okkur við það og eins hvaða tæki og tól geta nýst í því. Þetta er ekkert einfalt verkefni.“ 

 

Sigurður Már segir að reynt verði að vinna hratt að endurreisninni því áríðandi sé að byrja sem fyrst. Hann segir laxinn nýta sér nokkra læki sem tengjast Andakílsá til hrygningar. 

 

„Okkur ályktun af þessu núna er að lífríkið hafi orðið fyrir þungu höggi sem geti valdið lægð í laxastofni árinnar næstu árin, verulegri,“ segir Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is