Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
28. maí 2017

Orka náttúrunnar braut vatnalög

Orka náttúrunnar, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, braut vatnalög með því að tæma lón Andakílsvirkjunar. Þetta er mat Orkustofnunar. Stofnunin hefur krafist áætlunar frá Orku náttúrunnar fyrir júní lok um úrbætur vegna umhverfisslyssins í Andakílsá í Borgarfirði sem varð þegar allt að sex þúsund rúmmetrar af aur runnu úr inntakslóni Andakílsvirkjunar þegar það var tæmt.
 

Orkustofnun sér um stjórnsýslu vatnamála og segir í bréfi stofnunarinnar til Orku náttúrunnar að tæming lónsins sé leyfisskyld. Fulltrúar Orkustofnunar skoðuðu aðstæður við virkjunina við Andakíl í vikunni. 
 

„Það hefur náttúrulega orðið þarna umhverfisslys og við leggjum áherslu á það að Orka náttúrunnar sem í hennar valdi stendur til þess að bæta úr ástandinu og við óskum eftir því að þeir skili okkur skýrslu um það hvernig þeir vilji standa að því verki. Orkustofnun lítur þetta mjög alvarlegum augum og við teljum að þetta hafi verið alla vega tilkynningarskyld framkvæmd og jafnvel leyfisskyld. Og hún var hvorki tilkynnt til Orkustofnunar né þar af leiðandi ekki veitt neitt leyfi fyrir þessu.“

 

Segir Skúli Thoroddsen lögfræðingur Orkustofnunar. Í bréfi stofnunarinnar í gær til Orku náttúrunnar í gær er farið yfir málavöxtu og ákvæði vatnalaga og telur stofnunin að Orka náttúrunnar hafi hleypt úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar um botnlokur með ólögmætum hætti og valdið með því tjóni þar sem líkur benti til að lífríki árinnar og veiðimöguleikar í henni séu verulega takmarkaðir. Farið er fram á að Orku náttúrunnar færi umhverfi Andakílsár til fyrra horfs.  

 

Orkustofnun hefur úrræði eins og að beita dagsektum til að knýja fram úrbætur og þá er hægt að beita sektarákvæðum vatnalaga. Ekkert hefur verið ákveðið um það heldur er nú beðið eftir skýringum frá Orku náttúrunnar um hvað hafi gerst:

 

„Og hvað þeir segi um okkar afstöðu eins og kemur fram í þessu bréfi um að því er við teljum kannski að ákveðin brot á ákvæðum vatnalaga sem við tiltökum í bréfinu.“

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is