Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
21. maí 2017

Aur rann niður farveg Andakílsár

Orka náttúrunnar gæti þurft að bera skaðann af því að hafa hleypt úr inntakslóni fyrir Andakílsárvirkjun í Borgarfirði. Þúsundir rúmmetra af aur runnu niður farveg árinnar; það ógnar laxastofninum þar og laxveiði í sumar.

Það var hleypt úr inntakslónið fyrir Andakílsárvirkjun í upphafi vikunnar, og þá kom í ljós að það var mun meira set í lóninu en menn höfðu búist við. Þetta set hefur nú runnið fram farveg árinnar og er mögulega að setja laxastofninn hér í mikla hættu. Það var byrjað var hleypa úr lóninu á mánudag, í fyrsta skipti síðan virkjunin var byggð, fyrir um sjötíu árum síðan. 

Aur úr inntakslóni virkjunar í Andakílsá. Skjáskot ©Ruv.is
 

 „Það er ekki fyrr en á fimmtudagmorgni sem ég kem að ánni og sé að hún er að verða full af drullu, og þá læt ég Orku Náttúrunnar vita af því og þeir fara strax í aðgerðir til þess að stöðva framburðinn og loka fyrir,“ segir Unnsteinn Snorri Snorrason, formaður Veiðifélags Andakílsár. 
 

En þá var skaðinn skeður. Unnsteinn telur að sex til tíu þúsund rúmmetrar af seti hafi runnið niður farveginn - ummerkin eru greinileg - aurinn situr á botninum og þyrlast upp þegar við honum er hreyft. Þarna eru búsvæði laxaseiða mögulega orðin ónýt; langtímaáhrifin á laxastofninn gætu orðið slæm og það er allsendis óvíst með laxveiði í sumar: þarna er þegar búið að selja veiðileyfi fyrir milljónir. „Það eru mjög fáir öflugir veiðistaðir í ánni. Hún er mjög stutt þessi á, bara tveggja kílómetra vatnasvið. Það eru þrír megin veiðistaðir í ánni. Þeir eru eins og er, að því er ég fæ best að séð, fullir af drullu og það...já, það er erfitt að segja um það, en ég er verulega hræddur um að þetta gæti haft áhrif á veiði.“

 

Orka Náttúrunnar rekur þessa virkjun - starfmenn fyrirtækisins hleyptu úr lóninu. Hópur sérfræðinga kemur á mánudaginn að skoða aðstæður - en það er þegar farið að tala um skaðabætur. „Það er alveg hugsanlegt. Ég veit ekkert um það,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, talsmaður Orku náttúrunnar. „Við erum á þeim stað núna að kalla eftir svörum hjá sérfræðingum Hafrannsóknarstofnunar um það hvort tjón er orðið og hvað skynsamlegast er að gera í stöðunni eins og hún er núna, og það er það sem við erum að einbeita okkur að þessa dagana,“ segir Eiríkur. „Það gerir enginn svona viljandi. Þannig að vonandi leiðir þessi greining sem við þurfum að fara í á okkar aðgerðum til þess að við lærum af því þannig að þetta gerist ekki aftur.“

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is

 

Sjá einnig sjónvarpsfrétt Ruv Umhverfisslys í Andakílsá