Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
15. maí 2017

Landvernd leggst gegn eldi á frjóum laxi í sjó

Landvernd vill að stjórnvöld banni ræktun á frjóum eldislaxi í sjó nema að tryggt sé að erfðablöndun við íslenska laxastofna geti ekki orðið. Landvernd telur að áhættan sem fylgir stórauknu laxeldi í sjó hér við land, og þeim aðferðum sem hér eru notaðar, vera geigvænlega og óásættanlega fyrir íslenska náttúru.

 

Nota skuli ófrjóan lax eða lokuð kerfi

Til að koma í veg fyrir erfðablöndun vill Landvernd að notaður sé ófrjór laxastofn til eldis eða að laxinn sé alinn í lokuðum kerfum í sjó eða á landi. Þá skuli komið í veg fyrir óásættanlega mengun. Stjórnvöld skuli móta um þetta skýra stefnu. Auk þess þurfi að tryggja öflugt eftirlit með starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna svo þau geti starfað í meiri sátt við umhverfi og samfélag. Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar Landverndar sem fór fram um helgina. Í greinargerð er vísað í fræðigreinar tímaritanna Nature og Fish and Fisheries þar sem kemur fram að erfðablöndun getur breytt mikilvægum eiginleikum villtra laxastofna, til dæmis aldri og stærð við kynþroska, og hefur neikvæð áhrif á lífsferil og á möguleika villtra stofna til að bregðast við breytingum í umhverfinu. 

 

Óvissa um laxalús

Landvernd telur að fullyrðingar um að kalt umhverfi við Íslandsstrendur komi í veg fyrir laxalúsafaraldur séu ekki studdar af rannsóknum og að stuttur reynslutími sjókvíaeldis á Íslandi skapi óvissu um laxalús.

 

Fleiri fiskar úr eldi en sem tilheyra villtu stofnunum

Þá vekur Landvernd  athygli á því að í ljósi upplýsinga um meðalslysasleppingar á laxi, sem sé um einn lax á hvert framleitt tonn, þá myndu 185 þúsund eldislaxar sleppa árlega verði af þeim miklu áformum sem nú eru í kortunum við Íslandsstrendur. Þó fækki slysasleppingum með betri búnaði. Ef miðað er við meðalslysasleppingar þá slyppu tvöfalt fleiri laxar úr sjókvíaeldi á ári en meðalstofnstærð viltra laxa sem sé um 84 þúsund laxar. Þá fær Landvernd það ekki séð að fiskeldi með frjóum norskum eldislaxi standist ákvæði náttúruverndarlaga um ræktun og dreifingu framandi lífvera.

 

Vilja að vísindin verði leiðandi

Landvernd vill að vísindaleg þekking á áhrifum laxeldis í sjó verði höfð að leiðarljósi stjórnvalda við að móta leikreglur um fiskeldismál á Íslandi. Það sé áhyggjuefni að enginn sérfræðingur Hafrannsóknarstofnunar, þar sem er mesta þekking á vistfræði og erfðafræði íslenskra laxastofna, sitji í starfshópi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem vinnur nú að stefnumótun í fiskeldi.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is