Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
3. maí 2017

Nokkur orð um gullgrafaraæði og samfélagslega ábyrgð

Umræðan um sjókvíaeldi í íslenskum fjörðum fer hátt þessa dagana. Tvær fylkingar takast á, önnur með sjókvíaeldisfyrirtækin og fylgjendur þeirra innanborðs, hin samanstendur annars vegar af eigendum veiðiréttar sem eiga mikið undir að villtir stofnar laxa og silunga fái vaxið og dafnað og hins vegar fólki sem vill koma í veg fyrir að sjókvíaeldi spilli viðkvæmri náttúru landsins. Áður en lengra er haldið er ástæða til að halda því til haga að stangaveiði í íslenskum ám og vötnum veltir háum upphæðum á hverju ári, skilar arði til eigenda veiðiréttar og veitir fjölda fólks vinnu. Eins er ástæða til að benda á að þeir sem eru á móti eldi í sjókvíum eru langt í frá á móti eldi á matfiski.
 

Hugmyndir eldismanna um stóraukið eldi í sjó og fjárfestingar norskra eldisfyrirtækja í þeim áformum eru gullgrafarakenndar svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Það er ekki laust við að þetta ástand minni dálítið á nýafstaðið tímabil í sögu þjóðarinnar þegar fjármálasnillingar fóru offari í íslenskum bönkum, voru sæmdir orðum fyrir snilli sína og hafnir upp til skýjanna af stjórnmálamönnum en voru í raun á sama tíma að grafa undan fjármálakerfinu. Allir vita hvernig sú saga endaði.

Sjókvíaeldi við Íslandsstrendur á sér langa og býsna skrautlega sögu en allt frá byrjun hafa flestallar tilraunir til eldis á laxi í sjó farið illa. Aftur á móti hefur eldi uppi á landi, til dæmis á bleikju, gengið vel. Það er þess vegna umhugsunarvert af hverju norsk/íslensku eldisfyrirtækin horfa ekki til strandeldis á laxi. Því hefur verið borið við að strandeldi sé mun dýrara en það sem stundað sé í sjó en á móti hefur verið bent á gríðarlegan kostnað sjókvía­eldisfyrirtækja vegna affalla, þegar fiskur sleppur úr kvíum eða drepst vegna sjúkdóma svo ekki sé talað um viðvarandi baráttu sjókvíaeldisfyrirtækja við laxalúsina. Áhrif alls þessa á umhverfi og náttúruna er svo önnur saga, þar sem undir er tilvist og heilbrigði villtra lax- og silungsstofna í bráð og lengd.

Algjört stefnuleysi
Það er undarlegt til þess að hugsa að mitt í gullgrafaraæðinu sem ríkt hefur í sjókvíaeldi síðustu ár hefur í raun ríkt algjört stefnuleysi í málaflokknum af hálfu stjórnvalda. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur reyndar sagt að hún vilji hægja á útgáfu nýrra leyfa til laxeldis í sjókvíum meðan starfshópur um stefnumótun í fiskeldi sé að störfum. Að mínu mati og margra annarra er reyndar full ástæða til að stöðva alfarið útgáfu nýrra leyfa meðan beðið er niðurstöðu starfshópsins. Ég bíð spenntur eftir niðurstöðu hópsins og ber þá von í brjósti að hann leggi til að sjókvíalaxeldi verði alfarið skipt út fyrir strandeldi á laxi.

Strandeldi hefur flest ef ekki allt með sér og má nefna að með því er alfarið komið í veg fyrir að fiskar sleppi, auðvelt er að hafa stjórn á mengun sem hlýst af úrgangi og vatn, sem við höfum reyndar nóg af, má endurnýta með sjálfbærum hætti. Einnig hefur verið bent á að með því að hafa stjórn á vatnshita og vatnsgæðum í lokuðum kerfum er hægt að minnka og jafnvel koma í veg fyrir sjúkdóma og sníkjudýr sem og auka vaxtarhraða eldisfiska til mikilla muna. Síðast en ekki síst þetta: Með eldi í lokuðum kerfum væru eldisfyrirtækin að sýna samfélagslega ábyrgð þar sem matvælaframleiðsla væri stunduð við öruggar aðstæður, undir ströngu eftirliti og í góðri sátt við umhverfi og menn.

Þessi grein er eftir Pálma Gunnarsson og birtist í Fréttablaðinu og á vefnum visir.is