Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
9. apríl 2017

Eldi á ófrjóum laxi sé leið til að stefna að

Geldlax er viðkvæmari en frjór lax, segir framkvæmdastjóri Stofnfisks sem framleiðir geldlax. Hann segir að eldi á geldfiskum sé þó leið sem ætti að stefna á. Í Kastljósi í fimmtudagskvöldi var lagt til að geldlax yrði notaður í sjókvíaeldi til að skapa sátt um fagið.

 

Geldlax sé sáttaleið 

Óðinn Sigþórsson, fyrrverandi formaður Landssambands veiðifélaga, var meðal gesta Kastljóss í gærkvöld: „Eina leiðin til að gera þetta að mínu mati er að það verði notaður geldlax í eldi og ég held að það verði í raun sú sáttaleið sem að getur orðið til þess að þessi iðnaður geti þrifist af einhverju marki á íslandi. En ef þetta á að fara fram með óbreyttum hætti þá er ljóst að það verða mjög mikil átök framundan.“

Skjáskot ©Ruv.is
 

Geldlaxinn viðkvæmur

Þrílitna ófrjór lax hefur verið framleiddur í yfir áratug hjá fyrirtækinu Stofnfiski með því að setja laxaseiði undir mikinn þrýsting, þá verða allar frumur þrílitna og þegar hann verður stór þá verður hann ófrjór. Jónas Jónasson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins: „Við erum að selja þetta á Noreg í ansi stórum stíl en þar er reynslan að sýna að þetta gengur þokkalega undir ákveðnum aðstæðum og þar er reynslan að sýna að hann er ekki eins áreiðanlegur og tvílitna fiskur.“ Jónas tekur sem dæmi eins og þegar hiti verður of hár og þegar súrefnismettun er lág. „Þá á fiskurinn undir högg að sækja.“ Jónas segir að fiskurinn reiði sig þó vel af í ferskvatni.

 

Vilja rannsóknir á geldlaxi hér við land

Geldfiskur hefur ekki verið settur í sjó við Íslandsstrendur en Jónas segir að það standi þó til. Stofnfiskur vinnur nú að verkefni með Háskólanum á Hólum, Hafrannsóknastofnun og Landssambandi veiðifélaga sem felst í því að bera saman vaxtahraða bæði á seiðastigi og líka úti í íslenskum sjó. Til stóð að hefja rannsókn í vor: „Kanna íslenskar aðstæður og hvort það sé hægt að nota geldfisk,“ segir Jónas. Sótt var um styrk í AVS, rannsóknarsjóð í sjávarútvegi, sem fékkst ekki en Jónas segir að það verði sótt aftur um.

 

Leið sem ætti að stefna að

Jónas segir að vandi þrílitna geldfisksins sé einnig að markaðir séu ekki eins móttækilegir fyrir honum eins og frjóum fiski. Þegar mikil samkeppni er á markaðnum er tvílitna fiskur tekinn framyfir. Jónas segir að víða sé verið að þróa leiðir til að gelda fisk þó þær séu skemur á veg komnar: „Ég held að það sé mikill áhugi í framtíðinni á að koma í veg fyrir að fiskur sé kynþroska í eldi og ég held að það sé leið sem við eigum að stefna að.“

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is