Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
5. apríl 2017

Höfða mál gegn Löxum fiskeldi og MAST

Málsóknarfélagið Náttúruvernd 2, félag hagsmunaaðila, hefur stefnt Matvælastofnun og Löxum fiskeldi fer fram á að rekstrarleyfi Laxa Fiskeldis, fyrir 6000 tonna eldi á laxi í Reyðarfirði, verði ógilt. Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður fer með málið fyrir hönd málsóknarfélagsins.  

 

Vilja ógilda leyfi

Náttúruvernd 2 vill að rekstarleyfið verði ógilt, meðal annars á þeim forsendum að leyfið sé gefið út án þess að leyfilegur eldisstofn sé tilgreindur sem sé í bága við fiskeldislög. Þá sé leyfið, sem er frá árinu 2012, útrunnið og framlenging verið háð annmörkum. Starfsemi Laxa Fiskeldis í Reyðarfirði er ekki hafin. Stefnandi telur að lagaheimild skorti til að veita Löxum fiskeldi afnot af hafsvæðinu þar sem eldið á að vera og að eldið fari í bága við einkaréttarlega hagsmuni þeirra sem standa að málsókninni. Stefnan verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. apríl.

 

Vilja ógildingu leyfa Arnarlax

Jón Steinar Gunnlaugsson fer einnig með mál fyrir hönd málsóknarfélagsins Náttúruverndar 1 sem stefndi Arnarlaxi, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun. Málið var þingfest 10. janúar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þar er farið fram á að rekstrarleyfi og starfsleyfi Arnarlax fyrir eldi á laxi í Arnarfirði verði gerð ógild, meðal annars á þeim forsendum málsmeðferð við útgáfu leyfanna hafi verið háð annmörkum sem og fari gegn ákvæðum náttúruverndarlaga og fiskeldislaga.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is