Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
29. mars 2017

Alþingi. Fyrirspurnir um verndun villtra laxastofna og sjókvíaeldi

Nýverið gafst Bjarna Jónssyni fiskifræðingi kostur á að koma inn á Alþingi. Sendi hann inn þrjár fyrirspurnir um verndun laxastofna og fiskeldi til skriflegs svars á sjávar- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og samgönguráðherra. Jafnframt var hann með Birni Val Gíslasyni í einni slíkri fyrirspurn.

 

Hér fyrir neðan eru viðkomandi fyrirspurnir en þær lúta að fjölmörgu því er varðar fiskeldi í eldiskvíum og má þar nefna hættu á erfðablöndun eldislax og náttúrulax, vaxandi lyfjanotkun í laxeldi og aukin tíðni sjúkdóma í eldislax, mengun, leyfisveitingar, eftirlit, viðbragðsáætlanir, rannsóknir og fl. Það verður fróðlegt að sjá skrifleg svör við því sem um er spurt.

146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 466  —  341. mál. 

 

Fyrirspurn til umhverfis- og auðlindaráðherra um laxastofna o.fl. Frá Bjarna Jónssyni.

 

     1.      Er hafin vinna við setningu reglugerðar um dreifingu framandi lífvera eins og skylt er skv. 63. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013?
     2.      Hver er ábyrgð ráðuneytisins á verndun laxfiska gegn erfðablöndun við framandi laxastofna sem notaðir eru til eldis í sjó hér við land?
     3.      Telur ráðherra að íslenskir laxastofnar eigi sjálfstæðan rétt til tilvistar og áframhaldandi þróunar á eigin forsendum í íslenskri náttúru?
     4.      Telur ráðherra að þess skuli krafist að matsáætlanir vegna fiskeldis séu gerðar af óháðum fagaðilum eða telur hann nægja að fiskeldisfyrirtækin sjái sjálf um gerð slíkra áætlana?
     5.      Áformar ráðherra að efla faglegan og fjárhagslegan styrk eftirlitsstofnana, sem undir ráðuneytið heyra, til að sinna rannsóknum, eftirliti og eftirfylgni á verksviði sínu?


Skriflegt svar óskast.

 

Bein vefslóð fyrirspurnar á vef Alþingis

Hér er hægt að sækja fyrirspurn sem word-skjal eða pdf-skjal.

 

146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 465  —  340. mál. 

Fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um sjókvíaeldi og vernd villtra laxfiska. Frá Bjarna Jónssyni.

 

     1.      Hefur verið gerð fagleg úttekt á samlegðaráhrifum stóraukins fiskeldis í sjó hér við land á lífríki og, ef svo er ekki, mun ráðherra láta gera slíka úttekt áður en fleiri slík leyfi verða veitt?
     2.      Liggja fyrir verkferlar og viðbragðsáætlanir til að vernda villta stofna laxfiska fyrir erfðamengun, sjúkdómum, sníkjudýrum og öðrum áföllum sem geta hlotist af því að eldisfiskur sleppur úr haldi?
     3.      Hversu mörg fiskeldisleyfi telur ráðherra að eitt og sama fyrirtækið eigi að geta haft að hámarki?
     4.      Mun ráðherra stuðla að því að settar verði reglur um eignarhald fiskeldisfyrirtækja líkt og gert hefur verið í Færeyjum og eru í gildi varðandi eignarhald í sjávarútvegi hérlendis?
     5.      Mun ráðherra beita heimild í lögum til að fyrirskipa að notaðir verði geldir laxar til eldis í sjó hér við land í ljósi þess að í það stefnir að um 160.000 tonn af laxi verði alin hér?
     6.      Verður komið á reglulegu opinberu eftirliti með lúsasýkingum í sjókvíaeldi og niðurstöður þess birtar opinberlega í ljósi þess að fregnir hafa borist af alvarlegum sýkingum af þessu tagi og hvert er viðhorf ráðherra til þess að fylgst verði reglubundið með magni laxalúsa alls staðar þar sem sjókvíaeldi er fyrirhugað hér við land?
     7.      Verða sett viðmiðunarmörk um hámark leyfilegrar lúsasýkingar í fiskeldi í sjó? Ef svo er, munu þá viðurkenndir erlendir staðlar verða lagðir til grundvallar eða hvaða viðmiðunum yrði ella beitt og hvers vegna?
     8.      Hafa farið fram rannsóknir þær á umfangi laxalúsasmits í Eyjafirði sem lýst er yfir að verði gerðar í bréfi til Landssambands veiðifélaga þar sem beiðni Landssambandsins um friðun Eyjafjarðar fyrir sjókvíaeldi er hafnað?


Skriflegt svar óskast.

 

Bein vefslóð fyrirspurnar á vef Alþingis

Hér er hægt að sækja fyrirspurn sem word-skjal eða pdf-skjal.

 

146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 462  —  337. mál. 

 

Fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um verðmæti veiða í ám og vötnum. Frá Bjarna Jónssyni.

 

     1.      Hefur nýlega verið lagt mat á verðmætasköpun sem veiði í ám og vötnum stendur undir og þýðingu veiða á vatnafiskum fyrir byggð í sveitum landsins, og ef svo er, hverjar eru meginniðurstöður slíks mats?
     2.      Telur ráðherra að áform um aukið laxeldi í sjó krefjist nýs verðmæta- og áhættumats fyrir veiði í ám og vötnum?
     3.      Hvernig telur ráðherra að haga beri umgengni um þá auðlind sem villtir íslenskir laxfiskar eru og varðveislu erfðauðlindar þeirra til framtíðar?


Skriflegt svar óskast.

 

Bein vefslóð fyrirspurnar á vef Alþingis

Hér er hægt að sækja fyrirspurn sem word-skjal eða pdf-skjal.

 

146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 463  —  338. mál. 


Fyrirspurn til umhverfis- og auðlindaráðherra um laxeldi í sjókvíum. Frá Birni Val Gíslasyni og Bjarna Jónssyni.

 

     1.      Telur ráðherra ástæðu til að grípa til sérstakra ráðstafana umfram þær sem nú er beitt og þá hverra til að koma í veg fyrir hættu sem stafar af erfðablöndun vegna laxeldis í sjókvíum?
     2.      Hyggst ráðherra grípa til ráðstafana umfram þær sem þegar er beitt og þá hverra til að koma í veg fyrir að eldislax sleppi úr laxeldisstöðvum?
     3.      Hyggst ráðherra grípa til einhverra ráðstafana umfram þær sem nú er beitt til að koma í veg fyrir umhverfistjón vegna óþrifnaðar og mengunar sem fylgir laxeldi í sjókvíum?
     4.      Hyggst ráðherra grípa til ráðstafana umfram þær sem nú er beitt og þá hverra til að hindra að sjúkdómar og sníkjudýr í eldislaxi smitist í villtan lax og ógni líffræðilegum fjölbreytileika?
     5.      Hyggst ráðherra grípa til ráðstafana og þá hverra til að sporna við lyfjanotkun í laxeldi í sjókvíum?
     6.      Mun ráðherra stöðva frekari vöxt eldis á frjóum laxi í sjó, eða jafnvel eldi framandi laxastofna að öllu leyti, á forsendum náttúruverndar og með tilliti til þeirrar hættu sem af eldinu stafar fyrir lífríki í sjó og vötnum?


Skriflegt svar óskast.

 

Bein vefslóð fyrirspurnar á vef Alþingis

Hér er hægt að sækja fyrirspurn sem word-skjal eða pdf-skjal.


Greinargerð.
    Fyrirhugað er að margfalda laxeldi í sjó við Ísland í nánustu framtíð. Laxeldi í sjó er afar umdeilt, ekki síst vegna mikillar hættu á erfðablöndun eldislax og náttúrulax. Vaxandi lyfjanotkun í laxeldi og aukin tíðni sjúkdóma í eldislaxi er að sama skapi talin skapa mikla hættu fyrir lífríki hafs og vatna. Mikil mengun stafar af sjókvíaeldi. Talið er að eldi á 10.000 tonnum af laxi fylgi álíka mikil mengun og stafar frá 150.000 manna byggð.