Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
26. mars 2017

Svíar banna fiskeldi í opnum sjókvíum

Svíar munu hætta sjóakvíaeldi vegna umhverfisáhrifa þess. Fyrirtæki eins og Arnarlax stórauka fiskeldi sitt í sjókvíum á Íslandi. Stefnt að tíuföldun í framleiðslu eldislax á næstu árum. Svíar hafa bannað fiskeldi í opnum sjókvíum á þremur stöðum meðfram strandlengjunni Höga Kusten í Austur-Svíþjóð vegna slæmra umhverfisáhrifa slíks eldis. Þetta er niðurstaða dómstóls í Svíþjóð sem sérhæfir sig í umhverfismálum. Dómstóllinn telur ólíklegt að slíkt eldi sé umhverfisvænsta leiðin til að rækta fisk og telur ólíklegt að sjórinn geti brotið niður þau efni sem berast út í hann í slíku fiskeldi. Ekki er hægt að áfrýja niðurstöðunni og þurfa fyrirtækin sem stunda fiskeldi á svæðinu að hætta starfsemi sinni innan þriggja ára.

 

Í viðtali við sænska ríkisútvarpið segir eigandi eins fiskeldisfyrirtækisins á svæðinu, Roger Edlund, að niðurstaðan þýði líklega endalok heillar atvinnugreinar og eru fiskeldismenn í landinu mjög áhyggjufullir út af niðurstöðu dómsins. Fiskeldi á landi er miklu dýrara en opið sjókvíaeldi og því hefur slíkt eldi ekki náð útbreiðslu í Svíþjóð. Dómurinn er talinn bera með sér endalok alls sjókvíaeldis í Svíþjóð.

 

Á sama tíma og Svíar munu hætta sjókvíaeldi eru Íslendingar að auka sjókvíaeldi verulega og stefna á að tífalda framleiðslu sína á eldislaxi á næstu árum. Fyrirtæki eins og Arnarlax, Arctic Sea Farm, Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal og Fiskeldi Austfjarða eru þar á meðal. Mest af eldinu er ráðgert á Vestfjörðum, í Ísafjarðardjúpi og í Suðurfjörðunum, við Bíldudal og Patreksfjörð þar sem fyrir er umtalsvert fiskeldi.

 

Þessa frétt er að finna í Fréttatímanum.