Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
6. mars 2017

Laxalúsin veldur Norðmönnum þungum búsifjum

Norskt laxeldi glímir nú við gríðarmikil vandamál sem stafa af völdum laxalúsar. Þetta sníkjudýr leggst á laxinn og étur hann lifandi. Norska ríkisútvarpið NRK fjallar í dag um nýja skýrslu frá norsku Dýralæknastofnuninni. Hún fjallar um sjúkdómamál í norsku fiskeldi á síðasta ári. Skýrslan sýnir að fimmti hver lax í norskum eldiskvíum drapst úr sjúkdómum og af völdum laxalúsar á síðasta ári. 

Norskur eldislax sem lúsin hefur ráðist á. Fiskurinn var lifandi þegar hann var tekinn upp úr eldiskví. Sjá má að lúsin hefur nagað hann inn að höfuðbeinum. Ljósm.: Norska Matvælastofnunin.

Alls drápust 53 milljónir laxa í eldinu árið 2016. Það er lúsin sem stendur fyrir stærstum hluta af þessum gríðarmiklu afföllum. Norska fiskifóðurfyrirtækið Ewos hefur lagt fram tölur sem sýna að laxalúsin kosti norsk fiskeldisfyrirtæki um tíu milljarða norskra króna árlega. Á gengi dagsins eru það um 127 milljarðar íslenskra króna. Það er bæði lúsin sjálf en líka aðferðir við að reyna að ná þessu sníkjudýri af fiskunum sem dregur þá til dauða.

 

Norsk fiskeldisfyrirtæki hafa háð stríð við laxalúsina um margra ára skeið. Á síðustu árum er eins og vandamálið hafi farið úr böndunum. Notkun á lyfjum og eiturefnum til að drepa laxalúsina í eldiskvíum í sjónum hefur margfaldast og enginn veit hvaða áhrif slíkt hefur á lífríki hafsins. Þetta virðist þó koma að litlu gagni því laxalúsin hefur þróað með sér viðnám gegn þessum efnum. Nýjustu aðferðirnar eru að reyna að nota heitavatnsmeðhöndlun á laxinum gegn lúsinni en það veldur miklu álagi fyrir fiskana og dregur marga þeirra til dauða.

 

Norska sjónvarpið hefur birt myndir af löxum í norskum sjókvíum sem eru alsettir laxalús og sumir hverjir afar illa farnir af völdum hennar. Þessar myndir hafa vakið mikinn óhug og vekja upp spurningar um dýravernd og á hvaða vegferð laxeldið sé í raun.

 

Undanfarið hafa Norðmenn fjárfest mikið í uppbygginu sjókvíaeldis á laxi við strendur Íslands. Nú síðast bárust fregnir af slíku í lok febrúar. Ekki eru allir á eitt sáttir varðandi aukið laxeldi í sjó. Einn þeirra er Bubbi Morthens tónlistarmaður. Hann skrifaði á dögunum grein sem ber titilinn „Svart laxeldi.“ Þar segir meðal annars:

 

"Íslenskur lax hefur þróast í árþúsundir. Hann var hér löngu áður en fyrstu mennirnir námu land. Eldismenn vita af fenginni reynslu í Noregi, því þaðan koma þeir flestir sem eiga eldið á Íslandi, að þetta gullgrafaraævintýri þeirra mun eyðileggja íslenska laxastofninn alveg eins og hefur gerst í heimalandi þeirra."

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Eyjan.is