Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
6. mars 2017

Laxeldi heldur innreið sína í Reyðarfjörð

Fimm fyrirtæki áforma umfangsmikið fiskeldi á Austfjörðum. Á íbúafundi á Reyðarfirði komu fram áhyggjur af því að eldislax sleppi úr kvíum en framleiðslustjóri segir að allur búnaður muni uppfylla strangar norskar kröfur sem settar voru eftir mikið óveður þar í landi.

Samsett mynd. Skjáskot Ruv.is

Fyrstu sjókvíarnar komnar

Fiskeldi heldur nú innreið sína í Reyðarfjörð og merki þess má sjá á hafnarbakkanum. Þangað er kominn fyrsta sending af sjókvíum sem verða lagðar út á næstu dögum og fyrstu seiðunum verður sleppt í vor. Á fundi í grunnskólanum í gærkvöld kynnti fyrirtækið Laxar fiskeldi áform sín. „Við erum þegar búin að ráða 10 manns og þegar við förum upp í 6 þúsund tonna eldi 2018 og byrjum að slátra fiski þá verðum við með um það bil 45 manns sem fá vinnu samtals. Við erum búnir að sækja um nærri 20 þúsund tonn í viðbót þannig að heildarmagnið gæti orðið um 24 þúsund tonn en þá myndum við skapa svona 121 ársverk,“ segir Gunnar Steinn Gunnarsson, framleiðslustjóri hjá Löxum fiskeldi. Fyrirtækið mun þurfa að byggja sláturhús en Gunnar segir enn óljóst hvar á Austfjörðum það verður byggt. 

 

Nokkur leyfi en aðeins eitt í notkun

Nokkur leyfi hafa þegar verið gefin út á Austfjörðum. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun er Fiskeldi Austfjarða er með 8.000 tonna leyfi í Berufirði og 3.000 tonna leyfi í Fáskrúðsfirði. Laxar fiskeldi er með 6.000 tonna leyfi í Reyðarfirði og Þorskeldi ehf. er með 199 tonna leyfi í Berufirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði. Leyfi Fiskeldis Austfjarða í Berufirði er eina leyfið sem er nýtt í dag.

 

Mýgrútur áforma

Á fundinum greindi Skipulagsstofnun frá áformum um fiskeldi á Austfjörðum en aðeins sum þeirra eru komin í matsferli. Í Seyðisfirði áformar Fiskeldi Austfjarða 10.000 tonna eldi, Fjarðalax 8.000 tonn og Eldi og umhverfi 8.000 tonn. Í Mjóafirði og Norðfjarðarflóa áformar Fiskeldi Austfjarða 10.000 tonna eldi og í Mjóafirði áformar Fjarðalax 8.000 tonna eldi. Í Reyðarfirði og Eskifirði áforma Laxar fiskeldi 10.000 tonna viðbótareldi og í Fáskrúðsfirði áformar Fiskeldi Austfjarða 7.000 tonn og Laxar fiskeldi 4.000 tonn. Í Stöðvarfirði áformar Fiskeldi Austfjarða 10.000 tonna eldi og í Berufirði á fyrirtækið inni 6.000 tonna umsókn og Laxar fiskeldi eiga þar líka 5.000 tonna umsókn.

 

Umsóknir umfram burðarþol Berufjarðar

Óvíst er að allt gangi eftir enda hefur eldisþol sumra fjarðanna enn ekki verið rannsakað. Eldisþol eða burðarþol liggur fyrir í Reyðarfirði, 20 þúsund tonn, Fáskrúðsfjörður er talinn þola 15 þúsund tonn og Berufjörður 10 þúsund tonn. Þar er miðað við árlega framleiðslu á laxi án þess að súrefni minnki það mikið í sjónum að annað lífríki hljóti skaða af. Ljóst er að umsóknir um frekara eldi í Berufirði eru komnar fram úr burðarþoli fjarðarins og því ólíklegt að þær verði samþykktar. Forsvarsmenn Fiskeldis Austfjarða segja nú þegar að 6.000 tonna viðbótarumsókn þeirra hafi minnkað niður í 2.000 tonn og með 8.000 tonna leyfi sem þeir eiga fyrir yrði fjörðurinn fullnýttur. 

 

Ótti við mengun, strokufisk og hafís

Fundargestir höfðu sumir áhyggjur af áhrifum laxeldis á lífríkið ekki síst villta laxastofna. Fram kom að fiskeldisfyrirtækjum verður gert að fylgjast með áhrifum eldisins næst kvíunum og gætu þau þurft að draga úr eldinu komi í ljós óæskileg áhrif. Aðspurður um hvernig Laxar fiskeldi muni koma í veg fyrir að lax sleppi segir Gunnar: „Við munum kaupa þau nýjustu og bestu tæki sem eru til sölu og margra ára reynsla er af í Noregi. Það er samkvæmt norskum staðli sem var settur eftir 2006 þegar það varð verulega stórt áfall vegna óveðurs og það hafði mikið af laxi sloppið. Þá kallaði það fram þessa breytingu á löggjöfinni í Noregi og þá var gerð þessi reglugerð sem er nú búið að setja inn í íslensku reglugerðina og við munum fylgja henni og gæta þess að kaupa eingöngu vörur og tæki sem eru innan þessa staðals.“ Einnig var bent á að hafís gæti gert út um fiskeldið og tók Gunnar undir það en sagði líklegt að hafís myndi leggja kvíarnar saman þannig að fiskurinn í þeim dræpist. Gagnrýnt var á fundinum að fiskeldisfyrirtækjum væri ekki gert skylt að kaupa sér tryggingar fyrir öllum þeim skaða sem þau gæti valdið í veiðiám. Einnig var gagnrýnt að þau þyrftu ekki að kaupa fiskeldisleyfin af stjórnvöldum enda tækifærin takmörkuð og tekjurnar miklar.

 

Milljarðaverðmæti

Fram kom á fundinum að laxeldið skapi miklar útflutningstekjur. „Söluverðmæti 6 þúsund tonna af laxi eru um það bil 3,9 milljarðar íslenskra króna. Og ef við myndum framliða 24 þúsund tonn þá yrði söluverðmætið 15,6 milljarðar. Það yrði á hverju ári,“ segir Gunnar sem reiknar með að 650 krónur fáist fyrir kílóið. 

 

Hér er hægt að sjá myndskeið með þessari frétt.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is