Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
5. janúar 2017

Vandamál í sjávareldi á laxi fara stöðugt vaxandi

Stöðugt berast fréttir af vaxandi vandamálum, sem steðja að laxeldi í sjó. Þar bera hæst erfiðleikar við að útrýma lúsafári. Ýmsir vírussjúkdómar hafa valdi miklum vandræðum og nú hafa læknar, vísindamenn og neytendasamtök í Evrópu birt viðvaranir þess efnis, að ófrískar konur og börn þurfi mjög að takmarka neyslu á eldislaxi vegna eiturefna í fituvefjum fisksins.

 

Breska blaðið The Sunday Times birti grein 1. janúar s.l. þar sem segir, að notkun skoskra laxeldisfyrirtækja á eiturefnum hafi aukist um 1000% á síðasta áratugi. Blaðið hefur þetta eftir opinberum heimildum. Á árunum 2006 til 2016 hafi framleiðsla á eldislaxi í Skotlandi aukist um 35%. Á sama tíma hafi efnanotkun til að halda lúsafári í skefjum, aukist um 932%. Meðal þessara efna séu efnasambönd, sem tengist minnkandi frjósemi í villtum laxi og dauða skelfisks eins og humars.

 

Gagnrýnendur laxeldis í sjó segja, að vaxandi notkun á efnablöndum til eyðingar á laxalús, sem drepi milljónir af löxum á hverju ári, veki spurningar um áhrif eldisins á náttúruna. Þessi þróun hafi opnað á ný umræðu og hvatningu til stærstu matvöruverslana í Bretlandi um að banna sölu á eldilaxi frá svæðum í Skotlandi þar sem lúsafárið er stjórnlaust og stefni stofnum villtra laxa og sjóbirtings í hættu.

 

Andstæðingar laxeldis í sjó segja, að skosk laxeldisfyrirtæki heyi vonlausa baráttu gegn laxalúsinni, sem stöðugt vaxi þol gegn efnum, sem eigi að útrýma henni. Lyfin dugi ekki lengur og því miður verði humar og annar skelfiskur fyrir barðinu á baráttunni gegn lúsinni. Samkvæmt upplýsingum frá Skosku náttúruverndarstofnuninni, hafi laxeldisfyrirtæki þar í landi reynt 8.500 sérstakar efnameðferðir frá árinu 2002 og í sjóinn umhverfis Skotland hafi farið nærri 4 tonn af þessum efnablöndum.

 

Meðal þeirra efna, sem notuð hafi verið sé CYPERMETHRIN, eitur, sem hafi verið notað fram til ársins 2012, þegar í ljós kom, að laxalúsin hafði myndað þol gegn efninu. Með rannsóknum hafi vaknað grunur um, að efnið hafi áhrif á frjósemi í villtum laxi.

 

Samkvæmt upplýsingum Skosku náttúruverndarstofnunarinnar, SEPA, hafa á síðasta áratug verið notuð 2 tonn af AZAMETHIPHOS, sem er virkt efni í SALMOSAN, sem hefur verið vinsælt efni til aflúsunar. Vísindamenn í Kanada hafi nýlega birt skýrslu, þar sem lýst er áhyggjum af áhrifum AZAMETHIPHOS á sjávarlíf. Rannsóknir hafi sýnt, að ítrekuð áhrif af efninu geti veikt taugakerfi humars og leitt hann til dauða.

 

Samtök laxeldisfyrirtækja í Skotlandi hafna fréttum um stjórnlausa notkun efna til baráttu við lúsafarganið. Þau segja öll „lyf“ notuð undir eftirliti SEPA. Þeir noti örugg „lyf“ sem hafi verið samþykkt af dýralæknum og notuð undir þeirra stjórn. Þá hafi nýjar aðferðir við aflúsun gefið góða raun. Þar er m.a. vitnað til notkunar á aðferð, sem nefnist Thermolicer. Þetta er tæki þar sem laxinum er dælt um rör með heitu vatni, sem drepur lúsina. Samtök eldismanna keyptu nýlega eitt slíkt, sem kostaði 4 milljónir sterlingspunda eða 560 milljónir íslenskra króna.

 

Miklar vonir voru bundnar við þessa nýju tækni, en nýlega drápust rösklega 95 þúsund laxar eftir meðferð í Thermolicer. Laxinn þoldi ekki hitann. Eldisfyrirtækið Marin Harvest á Isle of Skye tapaði 2,7 milljónum sterlingspunda eða 360 milljónum króna vegna laxadauðans. – Nýlega drápust svo 60 þúsund laxar eftir Hydrogen Peroxide meðferð. Þá drápust 85 þúsund fiskar í Grey Horse Channel vegna sýkingar í brisi og 24 þúsund drápust í Invasion Bay af sama kvilla.

Það er því fleira en lúsin, sem veldur erfiðleikum. Gagnrýni á starfsemi laxeldisfyrirtækjanna fer hvarvetna vaxandi og þá m.a. í Noregi.