Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
4. janúar 2017

Allt að 5.000 tonna framleiðsla á laxi í Berufirði á vegum Laxa fiskeldis

Á vef Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin hefur tekið ákvörðun um matsáætlun allt að 5.000 tonna framleiðslu á laxi í Berufirði. Stofnunin féllst á tillögu Laxa fiskeldis að matsáætlun með athugasemdum sem má sjá hér fyrir neðan en jafnframt er hægt að nálgast umsögn Skipulagsstofnunar í heild sinni. 

Eldislax © Sumarliði Óskarsson

 

Ástand sjávar

1. Þorskeldi ehf. og Fiskeldi Austfjarða hf. eru með eldisleyfi í firðinum. Jafnframt liggur fyrir að Fiskeldi Austfjarða hf. hefur áform um aukið eldi. Í mati á samlegðaráhrifum þarf að gera grein fyrir áhrifum núverandi og fyrirhugaðs fiskeldis í firðinum á ástand sjávar og lífríkis, þar með talið framangreindum áformum.

 

2. Í reglugerð um fiskeldi er gerð krafa um að áður en sjókvíeldisstöð er færð á legustað sé gerð staðarúttekt í samræmi við staðalinn NS 9415:2009. Í frummatsskýrslu þarf að fjalla um niðurstöður straummælinga við eldisstaðsetningar á þann hátt sem kröfur staðalsins gera ráð fyrir (sbr. kafla 5.2 í staðlinum).

 

3. Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir hvernig staðið verður að vöktun á lífrænu álagi sjávar, byggt á staðlinum ISO 12878, og hvernig brugðist verður við ef álag verður umfram ásættanleg viðmið. Hér er átt við áætlun sem Laxar fiskeldi ehf. áformar að leggja fram vegna umsóknar um starfsleyfi, enda telur Skipulagsstofnun að umfjöllun um hana í frummatsskýrslu sé til þess fallin að flýta fyrir umsóknarferlinu þegar þar að kemur. Varðandi framkvæmd súrefnismælinga vísar stofnunin til leiðbeininga OSPAR um hvernig standa skuli að vöktun á súrefnisstyrk.

 

Áhrif á villta stofna laxfiska

1. Í frummatsskýrslu þarf að fjalla um fyrirhugaða framkvæmd í ljósi markmiða 2. gr. laga um náttúruvernd um vernd vistgerða, vistkerfa og tegunda og 2. mgr. 65. gr. þeirra laga.

 

2. Í Berufirði er leyfð starfsemi á vegum Fiskeldis Austfjarða hf. og Þorskeldi ehf. Í umsögn Matvælastofnunar kemur fram að óæskilegt er að ráðast í frekari framkvæmdir ef fjarlægðamörk ótengdra aðila séu innan við 5 km. Í frummatsskýrslu þarf að rökstyðja ítarlega, með hliðsjón af smiti sjúkdóma og laxalúsar, á hvaða forsendum veita ætti Löxum fiskeldi ehf. undanþágu frá fjarlægðamörkum reglugerðar um fiskeldi.

 

3. Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir hvernig kynslóðaskiptu eldi og hvíld eldissvæða Laxa fiskeldis ehf. verður háttað með tilliti til annars fiskeldis í Berufirði og hvernig tryggja á samhæfða eldisferla óskyldra aðila í fjörðunum, til að lágmarka smithættu milli eldissvæða til framtíðar.

 

4. Skipulagsstofnun telur nauðsynlegt að gerð verði spá um mögulega dreifingu smits frá eldissvæðum í Berufirði sem hægt verði að nota til að bregðast markvisst við ef sjúkdómar eða lúsaplága koma upp í laxeldi í firðinum. Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir líklegri dreifingu smitsjúkdóma frá eldissvæðum Laxa fiskeldis ehf.

 

5. Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir skipulagi eldissvæða í fjörðunum (staðsetningar) sem miði að því að hverfandi hætta verði á að smit berist frá einu svæði til annars.

 

6. Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir áætlun um fjölda fiska sem sleppi úr sjókvíum, yfir hve stórt svæði sé líklegt að þeir dreifist og hvaða ár séu mögulega í hættu vegna uppgöngu eldisfisks.

 

7. Ljóst er að lax hefur sloppið úr sjókvíum og deilt er um áhrif laxeldis í sjó á erfðir villtra stofna. Í frummatsskýrslu þarf að leggja mat á áhrif mögulegra sleppinga úr eldi Laxa fiskeldis ehf. á villta stofna laxfiska, svo sem erfðir og búsvæði þeirra. Í því mati þarf að koma fram hversu langt er í næstu veiðiár, sýna það á korti og leggja fram rökstutt mat á líkum þess að sleppifiskur frá fyrirhuguðu eldi geti haft áhrif á fiskistofna í nálægum ám. Umfjöllunin verði á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um laxfiska í ám er liggja til Fáskrúðsfjarðar og Berufjarðar auk Breiðdalsvíkur.

 

8. Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir öryggisþáttum er varða búnað og hvernig fyrirhugað er að varna því að fiskur sleppi úr eldiskvíum, þannig að umsagnaraðilum sé ljóstí hverju þeir þættir felast og hvaða viðmið eru í forsendum, svo sem straumar, vindar og marglytta.

 

9. Í frummatsskýrslu þarf að lýsa ítarlega viðbragðsáætlun sem fylgt verður ef eldislax sleppur úr eldinu og hvernig verja eigi að hann gangi upp í laxveiðiárnar Breiðdalsá og Selá og silungsárnar í Fáskrúðsfirði, Dalsá og Tunguá. Hér er meðal annars átt við gögn sem Fiskistofu eru nauðsynleg til að meta hvort viðbragðsáætlunin sé fullnægjandi.

 

10. Í frummatsskýrslu þarf að fjalla um önnur fiskeldisáform í fjörðum Austurlands og leggja mat á samlegðaráhrif þeirra með áformum Laxa fiskeldis ehf. í Berufirði.

 

11. Skipulagsstofnun bendir á að í umræðu í samfélaginu hefur undanfarið verið bent á þann kost að nýta ófrjóan lax í sjóeldi í því skyni að koma í veg fyrir erfðablöndun og ljóst er að Stofnfiskur hf. framleiðir slík seiði. Ef slíkt eldi er raunhæft mun það leysa þann þátt sem helst veldur áhyggjum varðandi umhverfisáhrif laxeldis í sjókvíum hér við land. Í frummatsskýrslu þarf að fjalla um hvort, og með hvaða hætti, notkun á ófrjóum laxi dragi úr áhættu vegna starfseminnar.

 

12. Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir fyrirkomulagi hreinsunar á kvíabúnaði og hvort fyrirhugað sé að nota efni er innihalda kopar við hreinsunina.

 

Hér er hægt að sækja umsögn Skipulagsstofnunar, pdf-skjal.