Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
3. janúar 2017

Samþykkti matsáætlun fiskeldis í Fáskrúðsfirði

Gera þarf spá um mögulega dreifingu smits frá fyrirhuguðum fiskeldissvæðum í Fáskrúðsfirði, sem hægt verði að grípa til komi upp sjúkdómar eða lúsaplága í laxeldi í firðinum. Einnig verður að gera áætlun um fjölda fiska sem sleppa úr sjókvíum, samkvæmt athugasemdum Skipulagsstofnunar við áætlun Laxa fiskeldis um umhverfismat.

 

Stofnunin samþykkti áætlun Laxa í gær en gerir sextán athugasemdir við hana. Þar segir að kanna þurfi samlegðaráhrif á áhrif sjávar, en tvö önnur fyrirtæki eru með leyfi til fiskeldis í firðinum. Þá þarf einnig að gera grein fyrir því hvernig staðið verður að vöktun á álagi á lífríkið og hvernig brugðist verði við því fari það umfram ásættanleg viðmið.

 

Í umsögn Matvælastofnunar um áætlunina kemur fram að óæskilegt sé að fjarlægð á milli ótengdra sjókvía sé innan við fimm kílómetrar, eins og fyrirhugað er. Því þurfi fyrirtækið að rökstyðja það ítarlega, með hliðsjón af smiti sjúkdóma og laxalúsar, á hvaða forsendum veita ætti því undanþágu frá fjarlægðarmörkum í reglugerð um fiskeldi. Sömuleiðis þurfi að koma fram hvernig samhæfing verður á milli fyrirtækja í firðinum, til að lágmarka smithættu á milli eldissvæða. Þá sé það nauðsynlegt að gerð verði spá um mögulega dreifingu smits frá eldissvæðum í Fáskrúðsfirði sem hægt verði að nota markvisst ef sjúkdómar eða lúsaplága koma upp í firðinum.

 

Að lokum er gerð krafa um mat á áhrifum þess að fiskur sleppi úr kvíunum á villta laxastofna, erfðir þeirra og búsvæði. Því þarf að gera nákvæmlega grein fyrir því hve langt er í næstu veiðiár og leggja fram rökstutt mat á áhrifum eldisfiska á villta laxa. Sjá má allar athugasemdirnar og umsögnina í heild á vef Skipulagsstofnunar.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is