Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
2. janúar 2017

Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Arnarlaxi stefnt

Fréttatilkynning                                                                    Reykjavík desember 2016 

 

Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Arnarlaxi stefnt

Málsóknarfélagið Náttúruvernd 1 hefur birt Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Arnarlaxi hf. stefnu þar sem krafist er ógildingu rekstrar- og starfsleyfa vegna sjókvíaeldis á norskættuðum laxi í Arnarfirði, en leyfin voru gefin út fyrr á þessu ári. Að Náttúruvernd 1 standa aðilar með hagsmuni sem stafar hætta af þessu sjókvíaeldi á laxi, meðal annars eigendur veiðiréttinda í lax- og silungsveiðiám, bæði í næstu nálægð við stöðina en einnig fjær.

 

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. janúar n.k.

 

Málssóknin er bæði reist á röksemdum um að ekki hafi verið gætt réttra aðferða við útgáfu leyfanna svo sem með því að afla mats á burðarþoli náttúrunnar og skilríkja til afnota hafsins eins og lög mæla fyrir um.  Einnig er byggt á efnislegum röksemdum svo sem að ekki hafi verið til að dreifa gildri heimild að lögum til að gefa leyfin út, starfsemin fari gegn gegn ákvæðum laga, m.a. náttúruverndarlaga og laga um fiskeldi og loks að rekstur þessarar stöðvar fari í bága við einkaréttarlega hagsmuni þeirra sem að málssóknarfélaginu standa.

 

Afar sterkar líkur standa til þess að eldi með norskættaðan lax í opnum sjókvíum hér við land muni skaða varanlega náttúrulega laxastofna. Benda upplýsingar frá Noregi til þess að þetta megi telja nánast öruggt. Málsóknin er því meðal annars byggð á því að Arnarlaxi hf. sé óheimilt að stunda starfsemi, sem líkleg sé til að valda slíku tjóni. Að mati stefnanda stendur málið, þegar til frambúðar er litið, um val á milli þess að stunda annað hvort þá starfsemi sem Arnarlax hf. stundar og til stendur að stunduð verði víðar við landið, eða viðhalda nýtingu lax- og silungsveiðihlunninda í íslenskum veiðiám með náttúrulegum stofnum.

 

Við þingfestingu málsins verða lögð fram umfangsmikil gögn sem varða hættuna á skaða sem svona stöð veldur á umhverfinu, einkum vegna laxa sem óhjákvæmilega sleppa úr kvíunum. Koma þar við sögu bæði rannsóknir og reynsla frá öðrum löndum, m.a. Noregi, en stærstu eigendur hins stefnda félags, sem hyggst reka sjókvíaeldið í Arnarfirði, eru einmitt norskir.

 

 

Nánari upplýsingar um málið veitir:

Jón Steinar Gunnlaugsson, hrl. í síma 892 2747

 

Hér er hægt að kynna sér nánar stefnuna, pdf-skjal