Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
19. október 2016

Veiðifélög fengu ekki að tala á fiskeldisfundi

Fulltrúum austfirskra veiðifélaga var neitað að taka til máls á fundi sem Austurbrú stóð fyrir á Djúpavogi um laxeldi á Austfjörðum. Formaður Veiðifélags Breiðdæla kallar fundinn áróðursfund en þar gerði fulltrúi fiskeldis lítið úr því að laxveiðiár á svæðinu væru náttúrlegar þegar hann kallaði þær eldisár. Í gær var haldinn á Djúpavogi opinn fundur um fiskeldismál. Þar voru flutt erindi á vegum Landssambands fiskeldisstöðva, Hafrannsóknarstofnunar, Skipulagsstofnunar, Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar, Fiskeldis Austfjarða og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.

Kallaði laxveiðiár eldisár

Á fundinum var eftirliti, regluverki og leyfisveitingum í fiskeldi lýst og einnig áformum og starfsemi þeirra fyrirtækja sem stunda eða hyggja á fiskeldi á Austfjörðum. Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Fiskeldis á Austfjörðum, fór meðal annars yfir kosti og galla þess að stunda eldi á svæðinu og nefndi við það tækifæri að veiðiár í nágrenninu væru lítið meira en eldisár. Þar vísar hann til þess að í Breiðdalsá er seiðum sleppt til að auka fiskgengd í ánni.

 

Nota fisk úr ánni til að rækta seiði

Gunnlaugur Stefánsson, formaður Veiðifélags Breiðdæla, er ekki sáttur við þessi orð og hvernig að fundinum var staðið. „Þetta er ósannur áróður og stenst ekki rök. Það sem við erum að gera er að varðveita og rækta náttúrulegan stofn árinnar. Þetta eru seiði sem verða til úr fiskum sem eru teknir úr ánni. Það eru kreist úr þeim hrogn, látin klekjast út og svo eru seiðin sett í ána. Þetta er náttúrulegur stofn,“ segir Gunnlaugur.

 

Fengu ekki að tala

Þegar hann fékk veður af því að til stæði að halda fund um fiskeldi reyndi hann að fá heimild til þess að fulltrúi veiðifélaga fengi að tala en segir að því hafi verið neitað. „Ég bauð framkvæmdastjóra Austurbrúar og spurði að því hvort ekki yrði fulltrúi umhverfissjónarmiða á fundinum. Hún tjáði mér að það væri ekki svigrúm til þess. Að Austurbrú standi fyrir svona áróðurfundi án þess að allra sjónarmiða sé gætt. Að Austurbrú skuli vera orðin að áróðursstofnun fyrir laxeldi á Íslandi án þess að nokkrum sé boðið til að vera þar til andsvara. Það var engum boðið til að gæta umhverfissjónarmiða á þessum fundi. Þarna er vegið að mjög stórum hagsmunum á Austurlandi með mjög ósanngjörnum hætti á vettvangi Austurbrúar,“ segir Gunnlaugur.

 

Fundur um atvinnuþróun og regluverk

Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, segir að fundinum hafi ekki verið ætlað að takast á við spurninguna um hvort stunda skuli fiskeldi á Austfjörðum eða ekki. Á þessum fundi hafi fiskeldið verið nálgast sem atvinnuþróunarmál og markmiðið að kynna regluverkið í kringum fiskeldið. Hún bendir á að Samband sveitarfélaga á Austurlandi ætli að standa fyrir stærri fundi um fiskeldi þar sem hún væntir þess að fulltrúar allra hagsmunaaðila geti tjáð sig.

 

„Uggaslitnir eldisgaurar“ fæli veiðimenn

Guðmundur Wiium Stefánsson, formaður veiðifélags Selár í Vopnafirði, tók reyndar til máls á fundinum þegar pallborðsumræður fóru fram og spurði meðal annars út í slysasleppingar en sem kunnugt er slapp talsvert af regnbogasilungi úr eldiskvíum í Berufirði í sumar. Hann afhenti Austurbrú áskorun um að halda fund þar sem náttúruverndarsjónarmið kæmu fram. „Það þarf ekkert marga uggaslitna eldisgaura til að þeir forði sér; þessir kúnnar sem við erum með í Selánni. Þeir sjá svoleiðis heima hjá sér en koma hingað til að lenda í ómengaðri náttúru. 80 þúsund tonna eldi á Austfjörðum er ekki einkamál þessara eldismanna,“ segir Guðmundur en hann líkt og aðrir sem hagsmuna hafa að gæta af laxveiði í ám óttast afleiðingarnar ef norskur kynbættur eldislax sleppur og blandast stofnum sem hrygna í íslenskum ám.

 

Spyr hvert við viljum stefna

Á fundinum kom fram að fiskeldið getur skapað mikinn fjölda af störfum og miklar útflutningstekjur en hjá Fiskeldi Austfjarða starfa 65 manns við seiðaframleiðslu, eldið sjálft, slátrun og vinnslu. Bent hefur verið á að margir geti notið góðs af fiskeldi á meðan fámennur hópur njóti góðs af villtum laxastofnum. Um þetta segir Gunnlaugur Stefánsson: „Þetta fjallar um meira heldur en þrönga hagsmuni landeigenda og veiðimanna. Þetta fjallar um það orðspor sem Austurland vill vera þekkt af. Ætlum við að vera þekkt af því að fylla alla firði af eldisgrút. Eru það ekki hagsmunir allra að vernda náttúruna og umhverfið?“ spyr Gunnlaugur.

 

Fram kom á fundinum að Hafrannsóknarstofnun vinnur nú að útreikningum á burðargetu fjarða þar sem fiskeldi er áformað. Burðarþolið á að segja til um hve umfangsmikið fiskeldi er óhætt að stunda í hverjum firði fyrir sig.

 

Bréf veiðifélaga til Austurbrúar:

 

Vopnafjörður, 14. október, 2016

 

Til Austurbrúar, 

 

Efni: Opinn fundur um sjókvíaeldi

 

Þriðjudaginn 18. október hefur Austurbrú boðað til opins fundar um laxeldi á Austurlandi á Djúpavogi. Við undirritaðir lýsum yfir furðu okkar á að í dagskrá fundarins er ekki gert ráð fyrir að fulltrúar náttúruverndar flytji erindi um óafturkræf áhrif sjókvíaeldis á náttúruna.

 

Við bendum á að með þessari einhliða kynningu á sjókvíaeldi er Austurbrú, sem er stofnun sem á að vinna í almannaþágu, að taka þátt í og stuðla að stórfelldri mengun fjarða með skaðlegum áhrifum á fuglalíf, lífríki sjávar og dýralíf. Dæmin í Noregi og víðar í heiminum hafa sýnt að það mun hafa mikil áhrif á aðrar atvinnugreinar sem nýta náttúruna með sjálfbærum hætti á Austurlandi, s.s. stangaveiði, ferðaþjónustu, sjávarútveg og valda eignaspjöllum, t.d. hjá landeigendum og æðarbændum. 

 

Við óskum því eftir að hið fyrsta verði haldinn opinn fundur um skaðsemi og hættur sjókvíaeldis á Austfjörðum, þar sem sjónarmið náttúruverndar verði höfð að leiðarljósi og fagaðilar á því sviði fjalli um málið.

 

Virðingarfyllst,

 

Stefán Már Gunnlaugsson
Formaður stjórnar Hofsár og Sunnudalsár

 

Guðmundur Wiium Stefánsson
Formaður veiðifélags Selár

 

Friðbjörn Haukur Hauksson
Formaður Vesturdalsár

 

Aðalsteinn Jónsson
Formaður veiðfélags Jöklu

 

Gunnlaugur Stefánsson
Formaður veiðifélags Breiðdæla

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is