Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
14. október 2016

Málssóknarfélag gegn sjókvíaeldi Arnarlax

Hópur hagsmunaaðila hefur stofnað málssóknarfélag og ætla að krefjast þess fyrir dómi að starfsleyfi fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax verði ógildað.  Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður hópsins vísar í norskar rannsóknir um eldislax sem sleppur úr sjókvíum geti spillt náttúrulegum stofnum í veiðiám.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður hópsins Mynd ©Ruv.is

 

Laxeldisfyrirtækið Arnarlax er stærsta fiskeldisfyrirtæki landsins. Þessar eldiskvíar eru í Arnarfirði. Ekki eru allir sáttir við starfsemina. Hópur hagsmunaaðila hefur stofnað málsóknarfélag þar sem þess er krafist að starfsleyfi Arnarlax verði fellt úr gildi. Meðal þeirra eru eigendur Haffjarðarár á Snæfellsnesi, veiðifélag Laxár á Ásum og veiðiréttarhafar í Bakkadal og Fífustaðadal.

 

„Það er sem sagt búið að gefa út starfsleyfið. Dómkrafan verður um að ógilda það og þar verða fyrir til varnar bæði fyrirtækið sjálft og stofnanir ríkisins sem gáfu út leyfið,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður málssóknarfélagsins.

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri hjá Arnarlaxi hafði ekki heyrt af málssóknarfélaginu þegar fréttastofa leitaði viðbragða en sagði að tekið yrði á þessu máli þegar að því kæmi. Jón Steinar segir að hættan felist í því að fiskur sleppi úr sjókvíum og spilli náttúrulegum stofnum í veiðiám.

 

„Meðal sækjenda er eigendur laxveiðiréttar í allt að 200 kílómetra fjarlægð en það eru vísindalegar upplýsingar um það  frá Noregi að hætta sem stafar af þessu sjókvíaeldi getur verið meira að segja náð lengra, þannig að því er haldið fram í málssókninni að þessi hætta sé til staðar jafnvel þó þessi fjarlægð sé frá þessum sjóeldiskvíum,“ segir Jón Steinar.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is