Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
12. október 2016

Áhyggjur vegna nýrnaveiki í íslenskum eldisfiski

„Landssamband veiðifélaga lýsir yfir miklum áhyggjum af þeim staðfestu fregnum frá Matvælastofnun (MAST) að nýrnaveiki hafi greinst í sumar og haust í  tveimur stórum/af stærri seiðaeldisstöðvum á Vestfjörðum. Eru þær fregnir í sterkri andstöðu við það sem haldið hefur verið fram að íslenskt fiskeldi sé sjúkdómafrítt og ógni ekki stofnum villtra fiska. Þá harmar Landssambandið að ekki skuli hafa verið upplýst um að sjúkdómar hafi komið upp í umræddum stöðvum strax í vor, heldur hafi þurft eftirgrennslan fjölmiðla til. Þessi atvik sýna svart á hvítu hvers má vænta af þeirri aukningu sem er að verða á laxeldi á Íslandi. Sýktir eldisfiskar sem sleppa eru mikil ógn við íslenska laxastofninn.

 

Þá er áhyggjum lýst yfir augljósri andstöðu fiskeldisfyrirtækja við að framfylgja lögum og reglum um upplýsingaskyldu, sem og þeim blekkingarleik sem stundaður er af þeirra hálfu. Fyrst er fullyrt að engir fiskar sleppi úr sjókvíaeldi. Þegar það gerist, upplýsa fiskeldisfyrirtæki það nær aldrei eða segja að aðeins sárafáir fiskar sleppi. Staðreyndir tala sínu máli og augljóst er að fjöldi eldisfiska sleppur úr sjókvíum  og þessi erfðamengaða ógn við íslenska náttúru veiðist um allt land þrátt fyrir að fáir vilji kannast við að hafa misst fisk.

 

Þá er fullyrt að eldið sé sjúkdómafrítt en það virðist einnig rangt; í tveimur af stærstu seiðaeldisstöðvum landsins hefur greinst  nýrnaveiki. Það er grafalvarlegt og gefur skýrt til kynna að eldið er langt frá því hættulaust villtum stofnum.

 

Landssambandið krefst þess að ekki verði frekari leyfi til eldis gefin út fyrr en farið hefur fram ítarleg áhættugreining á eldi frjórra norskra laxa með tilliti til mengunar, sjúkdóma og erfðamengunar.“