Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
6. október 2016

Nýjar veiðitölur

Komnar eru  nýjar veiðitölur á vef Landssambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiðii í lok síðasta miðvikudags 5. október síðastliðinn. 

 

Langflest vatnakerfi hafa lokað fyrir veiði þetta veiðitímabilið en veitt verður fram í október í nokkrum ám. Lokatölur hafa verið að týnast inn upp á síðkastið og er fyrir vikið að myndast samanburðarhæft yfirlit á þessu veiðitímabili sem er að ljúka. Alls eru komnar staðfestar lokatölur úr 35 ám og fljótlega berast aðrar lokatölur. Þess má geta að veiðibækur fara til Veiðimálastofnunar þar sem þær eru vandlega yfirfarnar, unnið úr upplýsingum og þær skráðar. Endanlegar veiðitölur eru síðan gefnar út í árlegri skýrslu sbr. Lax- og silungsveiðin 2015 sem má nálgast hér sem pdf-skjal. 

 

Þetta er nefnt sökum þess að af fenginni reynslu þá hafa tölur Veiðimálastofnunar verið í sumum tilvikum aðeins lægri en samantekt okkar hér á vefnum. Ekki munar þar miklu en best er að treysta endanlegum tölum frá Veiðimálastofnun enda búið að fara vel og vandlega í gegnum þær. En þangað til að þær upplýsingar berast þá getum við notast við þá söfnun veiðitalna sem hér er og þær upplýsingar ættu ekki að breytast mikið.

 

Vart þarf að fjölyrða um þau skilyrði er hafa verið til veiða síðastliðna viku en þau voru fremur slæm víðast hvar enda komu lægðir hver á eftir annari undanfarna daga með tilheyrandi hvassviðri og úrkomu. Engu að síður voru veiðimenn að og sumstaðar var ágætis veiði. Má þar nefna Laxá í Dölum þar sem 90 laxar veiddust síðastliðna viku og lokatölur eru 1711 laxar. Það er 133 löxum meiri veiði en árið 2015 þegar 1578 laxar veiddust. 

 

Ytri-Rangá er efst á listanum okkar og hafa veiðst 8935  laxar en á einni viku veiddust 213 laxar. Í öðru sæti er Miðfjarðará en lokatalan samtals 4338 laxar. Eystri-Rangá er í þriðja sæti og er komin í alls 3219 en alls veiddust 22 laxar sl. viku.

 

Þær ár sem á eftir koma eru:

   

4. Blanda 2386 laxar - (Lokatala).

 

5. Þverá og Kjarará 1902 laxar - (Lokatala).

 

6. Laxá í Dölum 1711 laxar - vikuveiði 90 laxar. (Lokatala).

 

7. Langá 1433 laxar - (Lokatala). 

 

8. Haffjarðará 1305 laxar - (Lokatala).

 

9. Norðurá í Borgarfirði 1297 laxar - (lokatölu vantar)

 

10. Laxá í Aðaldal 1207 laxar - (Lokatala).

 

11. Víðidalsá 1137 laxar -  (Lokatala)

 

12. Haukadalsá 1056 laxar -  (Lokatala) 

 

Sjá fleiri vatnakerfi og upplýsingar hér

 

Lokatölur berast vonandi fljótlega og verða þær settar á vefinn um leið og þær skila sér. Athygli er vakin á að velkomið er að senda inn lokatölur úr vatnakerfum sem ekki eru þegar á listanum og yrði þeim upplýsingum bætt við listann. Velkomið að senda póst á bjorn@angling.is eða sms í síma 852-3398.