Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
5. október 2016

Segir öllum leiðum verða beitt til að stöðva laxeldið

Hagsmunaaðilar í laxveiði undir forystu Orra Vigfússonar hafa lýst yfir stríði á hendur laxeldi í sjó. Orri segir eitthundrað milljarða króna veiðihlunnindi í hættu og að öllum leiðum verði beitt fyrir dómstólum til að stöðva sjókvíaeldið. 

Patreksfjörður og Bíldudalur eru dæmi um byggðir þar sem íbúum fjölgar á ný vegna laxeldis í sjó en bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum horfa menn til þess að uppbygging þessa atvinnuvegar geti orðið vendipunktur í byggðaþróun. Orri Vigfússon, formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna, segist hafa áhyggjur af því að gengið sé allt of hratt og allt of langt. Hann kveðst þó fagna fiskeldi, svo fremi að það sé sjálfbært og grænt, og þá í kvíum í landi eða í lokuðum kerfum í sjó.  

Kort Orra sem sýnir hvar regnbogasilungur hefur verið skráður. Orri tekur fram að um tvítalningar geti verið að ræða á sumum stöðum og ekki sé búið að afla staðfestingar um alla fundarstaði.

Með Orra hafa bundist samtökum veiðiréttareigendur, stangaveiðimenn, Fuglavernd, æðarbændur og eigendur sjávarjarða. „Ég geri ráð fyrir að það verði leitað allra leiða, fyrir dómstólum, og öllum þeim tækjum og tólum sem hægt er á Íslandi, þeim verður beitt, því við ætlum að stoppa þetta,“ segir Orri.

 

Hann segir gríðarlega saurmengun fylgja laxakvíunum, þeim fylgi sjúkdómahætta og lúsafaraldur en verst sé þó erfðamengun. „Þetta er úrkynjaður lax sem er notaður í laxeldi. Hann er kynbreyttur.“ Orri hefur dreift korti sem sýnir hvar regnbogasilungur hefur fundist í ám en hann hljóti að hafa komið úr eldiskvíum. Óhjákvæmilegt sé að laxinn sleppi líka út og hann muni blandast villta laxinum. „Til dæmis í Noregi eru tveir þriðju af öllum norskum ám nú þegar komnir með erfðamengun. Þetta er það sem við teljum að muni á einhverjum áratugum eyða meira og minna öllum villtum laxastofnum á Íslandi.“ 

Orri hefur meðal annars á grundvelli nýrra náttúruverndarlaga gert skýra kröfu til viðkomandi ráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, um að öll fiskeldisleyfi, sem eru í mótsögn við lög og reglugerðir, verði strax dregin til baka og að áhættumat fari fram. 

Orri leynir því ekki að þetta snúist um mikla fjárhagslega hagsmuni. Lax- og silungsveiði sé að velta 15 til 20 milljörðum króna á ári. „Við höfum metið hlunnindin á um það bil eitthundrað milljarða króna.  Það er bara markaðsvirði þessara hlunninda. Þetta er allt í hættu.“ Þetta snerti um 1.800 hlunnindajarðir hringinn í kringum landið.  „Ég geri ráð fyrir að það séu um fimm þúsund manns sem eiga þessi hlunnindi á Íslandi. Og það er allt í hættu,“ segir Orri.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum visir.is

 

Hér er hægt að horfa á frétt um viðkomandi mál.