Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
21. september 2016

Nýjar veiðitölur

Komnar eru  nýjar veiðitölur á vef Landssambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 21. september síðastliðinn. 

Veðurfar síðustu viku var fremur rysjótt, einkenndist af töluverðri úrkomu og vindasamt að auki. Haustlægðirnar eru farnar að leggja leið sína til okkar og fyrrnefnt veður fylgir í kjölfarið en hitastig hefur haldist nokkuð hátt miðað við árstíma. Það er víða fallegt um að litast á veiðislóð enda skartar náttúran fallegum fjölbreyttum litskrúða og ekki amalegt að stunda veiðar í jafn fallegu umhverfi.

Nú loka árnar ein af annari og eru komnar lokatölur úr nokkrum ám en það eru Blanda með 2386 laxa, Þverá og Kjarará með 1902 laxa, Haffjarðará með 1305 laxa, Skjálfandafljót með 404 laxa, Laugardalsá með 251 laxa og Búðardalsá með 211 laxa. Það vantar veiðitölur úr þónokkuð af vatnakerfum en ástæða þess eru sú að nokkrar ár eru að loka nú um stundir og senda fljótlega inn lokatölur sem við munum síðan birta. Við þetta bætist síðan sú staðreynd að erfitt er að nálgast tölur þar sem viðveru starfsfólks veiðihúsa er lokið en veiði heldur áfram. Þá verður æði oft erfitt um vik að sækja tölur en þær munu vonandi koma fljótlega þegar færi gefst.

Villtur lax Mynd © Sumarliði Óskarsson

Það bætist í hóp þeirra vatnakerfa þar sem veiðin er komin yfir 1000 laxa markið en það mun vera Víðidalsá í þetta skiptið en síðustu viku veiddust alls 63 laxar og hún kominn í 1053 laxa. 

 

Sem fyrr trónir Ytri-Rangá efst á listanum okkar en veiðin komin yfir 8000 laxa markið og alls hafa veiðst 8379  laxar en á einni viku veiddust 413 laxar.

 

Miðfjarðará er komin yfir 4000 laxa markið en þar hafa veiðst alls 4195 laxar en síðastliðna viku veiddust alls 247 lax sem er svipað og vikuna á undan. Eystri-Rangá er komin í 3149 en alls veiddust 99 laxar sl. viku sem er meiri vikuveiði en vikuna á undan.

 

Þær ár sem á eftir koma eru:

   

4. Blanda 2386 laxar - vikuveiði 30  laxar (Lokatala).

 

5. Þverá og Kjarará 1902 laxar - (Lokatala).

 

6. Norðurá í Borgarfirði 1297 laxar en þess ber að geta að þessi tala er frá 7 september og vonandi verður fljótlega hægt að uppfæra.

 

7. Haffjarðará 1305 laxar - vikuveiði 25 laxar. (Lokatala).

 

8. Langá 1312 laxar - vikuveiði 83 laxar.

 

9. Laxá í Dölum 1431 laxar - vikuveiði 206 laxar.

 

10. Laxá í Aðaldal 1165 laxar - (Veiðitala frá 14 september) 

 

11. Víðidalsá 1053 laxar - vikuveiði 63 laxar.

 

12. Haukadalsá 1003 laxar -  (Veiðitala frá 14 september) 

 

Eins og fyrr segir þá loka árnar ein af annari þessa dagana og má búast við nýjum lokatölum hér á angling.is um leið og þær berast. Það verður fróðlegt að sjá hverjar lokatölurnar verða og bera saman við undangengin veiðitímabil.