Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
6. september 2016

Áforma smávirkjun í Eyjafirði

Einkahlutafélagið Tjarnarvirkjun ehf. áformar að reisa smávirkjun í Eyjafjarðará þar sem hluti af rennsli árinnar á tæplega 1,5 kílómetra kafla verður færður inn í þrýstipípu fyrir vatnsaflsvirkjunina. Stjórnendur veiðifélags árinnar gagnrýna harðlega að ekkert samráð sé um svo viðamikið verk en ráðgjafi hjá EFLU segir virkjunina áformaða í fullu samráði við veiðifélagið og hagsmunaaðila.

„Þetta er rennslisvirkjun þannig að það verður ekki uppistöðulón að neinu marki. Nú munum við fara í rannsóknir á svæðinu til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á umhverfið, svo sem lífríki árinnar og gróðurfar við bakka hennar,“ segir Brynja Dögg Ingólfsdóttir, umhverfisfræðingur hjá EFLU. „Gerður verður stigi fyrir göngufisk þannig að hann á greiðari leið upp ána. Þetta verður allt gert í fullu samráði við veiðifélagið. Það er ekki hægt að vinna svona verk nema vera í fullu samráði við landeigendur og veiðifélagið,“ bætir Brynja við.

Bleikjustofninn í Eyjafjarðará hefur orðið fyrir miklum áföllum síðustu ár.

Á myndinni sést yfir neðstu veiðisvæði árinnar. Mynd ©visir.is

Virkjunin verður um 1MV að stærð og því tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar sem metur hvort virkjunin þurfi í umhverfismat.

Fyrir er ein önnur virkjun í ánni, Djúpadalsvirkjun, sem brast fyrir nokkrum árum og þurrkaði nánast upp lífríki í Djúpadalsánni með stórflóði í Eyjafjarðará. Jón Gunnar Benjamínsson, einn þeirra sem hefur veitt í ánni lengi og þekkir raunir bleikjustofnsins í ánni vel, segir hin nýju áform dapurleg. „.Reynsla okkar af Djúpadalsárvirkjun er afleit. Mér líst því afar illa á fyrirhugaðar framkvæmdir því þær munu hafa slæm áhrif á fiskgengd inn á þetta svæði auk þess sem reynsla okkar af fyrri virkjunarframkvæmdum þessa sama aðila á vatnasvæði Eyjafjarðarár er slæm eins og lýst er hér að framan,“ segir Jón Gunnar.

Fréttin, eftir Svein Arnarsson,  birtist fyrst í Fréttablaðinu.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum visir.is