Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
28. júlí 2016

Athugasemdir vegna tillagna Laxa fiskeldis ehf um 9000 tonna eldi á frjóum norskum eldislaxi í íslenskum fjörðum

Hér fyrir neðan er bréf sem sent var til Skipulagsstofnunar 27 júlí sl. en efni viðkomandi bréfs varðar tillögur Laxa fiskeldis ehf. að matsáætlun vegna allt að 5000 tonna ársframleiðslu á eldislaxi í sjókvíum í Berufirði og 4000 tonna ársframleiðslu í Fáskrúðsfirði.

 

Athugasemdir Landssambands veiðifélaga.

 

Inngangur

Í ljósi þess að framangreindar auglýstar matsáætlanir Laxa fiskeldis eru í meginatriðum samhljóða setur Landssamband veiðifélaga  fram athugasemdir vegna tilkynntra áformaðra framkvæmda  sameiginlega í skjali þessu. Með fyrirliggjandi tillögum að matsskýrslu tilkynnir fyrirtækið Laxar fiskeldi ehf. áform um að hefja sjókvíaeldi á laxi, 5000 tonnum  í Berufirði og 4000 tonnum  í Fáskrúðsfirði ár hvert.  Til eldisins á að nota kynbættan norskan eldisstofn. Fyrir liggur að Fiskeldi Austfjarða hefur tilkynnt Skipulagsstofnun að það fyrirtæki áformaði að afla heimilda til að auka laxeldi  í Berufirði og Fáskrúðsfirði. 

I

Í fyrirliggjandi tillögum að matsáætlun er þessi málatilbúnaður allur rakinn þar sem Skipulagsstofnun hafnar erindi Fiskeldi Austfjarða með þeim rökum að hnitsett svæði Laxa fiskeldis ehf. skarist á við framkvæmdaráformin. Þar gildi sú regla að fyrstir koma, fyrstir fá.  Vísar Skipulagsstofnun m.a. til reglunnar með eftirfarandi hætti:

 

„Skipulagsstofnun minnir í því sambandi á þá óskráðu reglu, sem á rætur að rekja til Rómaréttar, að sá sem er á undan öðrum hefur forgang, enda var ekki þegar framangreind mál Laxa fiskeldis ehf og Fiskeldis Austfjarða bárust stofnuninni að finna ákvæði í lögum nr. 106/2000 og reglugerð nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum, með áorðnum breytingum, sem tók á því þegar þær sérstöku aðstæður koma upp að tveir lögaðilar vilja fá umfjöllun samkvæmt lögum um svipaða framkvæmd á “sama framkvæmdastað”.

 

Mál þetta er að mati Landssambandsins lýsandi dæmi um þá óreiðu og það skipulagsleysi sem nú ríkir við ókeypis úthlutun á takmarkaði auðlind sem eru hin leyfilegu eldissvæði við strendur landsins. Hér sækist því hver um annan þveran til að afla ókeypis eldisleyfa og selja síðan fyrirtækin, eða hluta í þeim og leyfin þar með.   Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á hvernig slíkum málum er háttað í Noregi en þar greiða eldisfyrirtækin mikla fjármuni fyrir eldisleyfin.  Það þarf því ekki að koma að óvart, að laxeldisfyrirtækin á Íslandi eru nú óðum að færast í eigu norskra aðila.  Þessi þróun er áhyggjuefni þar sem ábyrgð eldisfyrirtækjanna á því umhverfistjóni sem þau kunna að valda er engin að lögum geti þau ekki sjálf innt af hendi fjármuni til að bæta tjón af þeirra völdum. Þegar frumvarp til breytinga á lögum  um fiskeldi  nr. 71/2008  var kynnt hagsmunaðilum síðla vetrar 2014 setti Landssamband veiðifélaga fram þá kröfu við ráðherra að sjókvíaeldisfyrirtækjum yrði gert skylt að kaupa umhverfistryggingar til ábyrgðar á því tjóni sem starfsemi þeirra kann að valda á vistkerfi landsins.  Forsvarsmenn fiskeldisiðnaðarins lögðust hart gegn tillögunni á þeim forsendum að slíkt yrði of kostnaðarsamt og íþyngjandi fyrir fyrirtækin .   Því má ljóst vera að fiskeldisiðnaðinum er fullljós sú hætta sem villtum laxastofnum er búin vegna sjókvíaeldis á norskum laxi við Íslandstrendur enda þekkt að upphæð iðgjalda trygginga endurspeglar mat tryggingafélaga á tjónsáhættu. Ákvæðið var því ekki að finna í frumvarpinu en afstaða fiskeldisiðnaðarins gegn ákvæðinu skýtur skökku við yfirlýsingar þeirra nú,  að villtum laxastofnum sé engin hætta búin vegna norskra strokulaxa úr stórfelldu eldinu.

 

Landssamband veiðifélaga telur  að gera verði ríkar kröfur um rannsóknir og upplýsingar sem liggja eigi frammi þegar umhverfismat áætlana um sjókvíaeldi fer fram.  Burðarþolsmælingar einar og sér hafa takmarkaða þýðingu í þessum efnum þar sem þær rannsóknir takmarkast við viðtakann að mestu og staðbundin umhverfisáhrif sem kunna að vera afturkræf að mestu.  Landssamband veiðifélaga hefur í umsögnum sínum um tilkynnt eldisáform til Skipulagsstofnunar kallað eftir frekari rannsóknum sem lúta m.a. að fari laxfiska frá eldissvæðum og um eldissvæði.  Er  miður að ekki hefur verið tekið undir þau sjónarmið við meðferð umhverfismatsáætlana og því engar staðbundnar rannsóknir um þá þætti fyrir hendi.  Landssamband veiðifélaga telur þessa málsmeðferð ekki í samræmi við úrskurð Úrskurðarnefndar um umhverfis og auðlindamál nr. 43/2012.  Þar segir m.a.:

 

“Eðli málsins samkvæmt sé ekki komin reynsla og þekking á því hvort eldislax hrygni í ám landsins eða hvort erfðaefni hans blandist villtum erfðum og ef svo sé hvort og hvaða neikvæðu áhrif það kunni að hafa.  Telji stofnunin að í ljósi skorts á grunnþekkingu á þessum þáttum megi gera ráð fyrir að niðurstaða mats á umhverfisáhrifum stakrar framkvæmdar yrði mikilli óvissu háð hvað þetta varði.“

 

Þá kemur einnig fram í úrskurðinum að nefndin telur að  skortur á grunnþekkingu geti ekki leitt til niðurstöðu máls og vísar í því sambandi til reglna alþjóðlegs umhverfisréttar um varúðarnálgun og varúðarreglu sem nefndin telur að líta beri til, en til þeirra er vísað í alþjóðasamningum sem Ísland á aðild að.  Einnig vísar nefndin til varúðarreglu sem nú hefur verið lögfest sbr.  9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

 

Landssamband veiðifélaga telur það óásættanlegt með öllu að ekki skulu nú þegar verið framkvæmt áhættumat vegna sjókvíaeldis við Ísland.  Veiðimálastofnun hefur ítrekað bent á að meta þurfi með heildstæðum hætti þá hættu sem villtum laxastofnum er búin vegna hinna stórfelldu áforma um sjókvíaeldi við Ísland.  Nú stefnir í að sótt verði um leyfi til að ala yfir 100 þúsund tonn af laxi í sjókvíum við Ísland.  Afgreiðsla þessara umsókna fer nú fram með þeim hætti að hver umsókn er metin fyrir sig án þess að tekið sé tillit til heildaráhrifa starfseminnar á vistkerfið.  Landssambandið telur þetta verklag vera andstætt markmiðsákvæðum og meginreglu nýrra náttúrverndarlaga og gerir því kröfu um að frekari umfjöllun um leyfi til laxeldis í sjó verði frestað þar til áhættumat hefur farið fram á grundvelli heildaráhrifa á vistkerfið sem verði þá lagt til grundvallar því hversu mikið magn eldislaxa megi leyfa í sjókvíum við Ísland.

 

Um eignarhald fyrirtækisins

Í fyrirliggjandi matsáætlunum kemur ekki fram hvernig eignarhaldi á fyrirtækinu Laxar fiskeldi sem er framkvæmdaraðili  er háttað, aðeins að um einkahlutafélag sé að ræða. Landssambandið telur eðlilegt að í frummatsáætlun komi slíkar upplýsingar fram sem og lýsing á fyrirtækinu líkt og almennt hefur tíðkast í tilkynningum eldisaðila til Skipulagsstofnunar.

Tillaga að matsáætlun mætir ekki kröfum laga um náttúrvernd.

Verulega skortir á upplýsingar í fyrirliggjandi tillögum að matsáætlun um það vistkerfi sem er viðkvæmast vegna starfseminnar þ.e. stofna villtra laxfiska á svæðinu. Í lögum nr. 60/2013 sem víðtæk sátt náðist um á Alþingi og tóku gildi hinn 15. sept. s.l.  er að finna strangar reglur til verndar umhverfi.  Í markmiðsákvæði laganna kemur skýrt fram að vernda skal líffræðilega fjölbreytni og tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru og verndun þess sem þar er.  Í 8. gr. laganna er kveðið á um vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku.  Ljóst er að sá grundvöllur er ekki fyrir heldi í fyrirliggjandi matsáætlun sé litið til umfjöllunar um áhrif eldisins á villta laxfiskastofna. Þá verður heldur ekki  annað ráðið af matsáætlunum en að fyrirhugað sé að fjalla um þennan þátt málsins  með mjög takmörkuðum hætti í frummatsskýrslu. 

 

 Um 8. gr. segir í aths. með lögunum:

:Regla sú sem sett er fram í 8. gr. er ekki eðlisólík rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga en felur í sér sértækari kröfur.

 

Landssamband veiðifélaga telur að skortur á vísindalegum upplýsingum í frummatsskýrslu hafi það í för með sér að Skipulagsstofnun sé skylt að lúta fyrirmælum rannsóknarreglu stjórnsýslulaga eða líta til varúðarreglunnar að öðrum kosti, sbr. 9. gr. laganna.  Af athugasemdum með greininni verður því aðeins ráðið að verði vísindalegum upplýsingum um framangreind efni ekki aflað með rannsóknum og niðurstöður birtar í frummatsskýrslu verði álit Skipulagsstofnunar alfarið byggt á ströngustu sjónarmiðum varúðarreglunnar til verndar náttúrunni. Um varúðarreglu segir m.s. í athugasemdum:  

                           

 „Hún kemur fyrst og fremst til skoðunar þegar óvissa er til staðar eða þekkingarskortur um afleiðingar ákvarðana sem áhrif kunna að hafa á náttúruna. Ákvæði 9. gr. frumvarpsins taka því við þar sem 8. gr. sleppir.“

 

Varúðarreglan byggir á marháttuðum alþjóðaskuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist og finna má í athugasemdum með lagagreininni.

 

Sammögnunaráhrif

Landssamband Veiðifélaga ítrekar enn kröfu um, að við mat á sammögnunaráhrifum fiskeldisframkvæmda, vegna umhverfisáhrifa á villta laxastofna, verði litið til allra áforma um  um sjókvíaeldi á áhrifasvæði starfseminnar.  Í þessu tilviku ber að skoða sammögnunaráhrif framkvæmdarinnar við allar áformaðar framkvæmdir í sjókvíaeldi í fjörðum á Austurlandi sem framkvæmdaraðili lýsir sem stórfelldum. Er í þessu sambandi vísað til ákvæða laga um náttúruvernd nr. 60/2013 sbr. 10. gr. hinna sömu laga um mat á heildarálagi.

Þar segir: „ Áhrif á náttúru svæðis skal meta út frá heildarálagi sem á svæðinu er eða það kann að verða fyrir.“

 

Í athugasemdum með greininni kemur fram að:  

Ákvæðið ber að skoða í samhengi við markmiðsákvæði 1. gr. frumvarpsins og verndarmarkmið 2. og 3. gr. Það felur í sér áherslu á vistkerfisnálgun sem er aðferð til að ná fram samþættri stjórn á nýtingu náttúruauðlinda sem miðar að vernd og sjálfbærri nýtingu og byggist á vísindalegri þekkingu á hinum ólíku vistkerfum og starfsemi þeirra.“  

 

Þá segir einnig í athugasemd með greininni að:  „Í ákvæðinu felst einnig að mat á heildarálagi á náttúrusvæði skuli fela í sér mat á hugsanlegum áhrifum til framtíðar.“

LV telur að aðeins verði af lögunum ráðið að líta ber á laxeldi í fjörðum á Austurlandi sem eitt svæði sé litið til 10 gr. l. um náttúrvernd, og hættunnar á óafturkræfum umhverfisáhrifum á laxastofna í austfirskum ám, allt frá ám í Vopnafirði suður að Fonti á Glettinganesi. Greinin felur í sér að skylt sé að fyrir liggi vísindaleg þekking á hinum ólíku vistkerfum  og starfsemi þeirra sem byggja megi ákvarðanir um nýtingu og stjórn náttúruauðlinda á, sem og áhættumat vegna neikvæðra umhverfisáhrifa til framtíðar.    Vísað er til þess þegar 2900 eldislaxar af norskum uppruna sluppu úr  nót í Norðfirði í ágúst 2003.  Á annað hundrað  eldislaxar  veiddust í ám á Austurlandi þá um haustið. http://www.veidimal.is/files/Skra_0012485.pdf.   Af þeim atburði verður aðeins dregin sú ályktun að umhverfisáhrifa vegna áforma Laxa fiskeldis mun gæta í öllum ám á Austurlandi.                                                                                                             

Þá er einnig vísað til umhverfisslyss þegar norskur eldislax  slapp úr sjókvíum fyrirtækis í Patreksfirði haustið 2013.  Það var svo síðsumars árið  eftir að lax fór að veiðast á stöng við ós Kleifaár í Patreksfirði.  Ekki er vitað með vissu hversu margir laxar veiddust en skráðir veiddir laxar reyndust a.m.k. tvöfalt fleiri en tilkynning fyrirtækisins gerði ráð fyrir.

Veiðimálastofnun rannsakaði 43 eldislaxa sem veiddust og  voru þeir allir með stækkandi kynkirtla og tilbúnir til hrygningar haustið 2014.

http://veidimal.is/default.asp?sid_id=22185&tre_rod=001|001|007|&tId=2&fre_id=190074&meira=1.    

Sá laxastofn sem fyrirhugað er að nota í eldi Laxa fiskeldis er hinn sami og sannanlega var tilbúinn til hrygningar  skv. framangreindu, eftir vetrarlanga vist í sjó. Almennt er talið að eldislax sem sleppur úr kvíum og verður kynþroska gangi í ferskvatn  síðsumars eða að hausti til hrygningar og þá gjarnan eftir að veiðitíma lýkur sbr. skýrslu sérfræðinga .https://www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/Skyrslur/Fiskeldisskyrsla-2014.pdf

 

Af þeim sökum kann svo að fara að umhverfisáhrif hans komi ekki fram fyrr en  erfðablöndun við villta laxastofna hefur átt sér stað og skaðað umhverfið.

 

Vísindaleg þekking á þeim þáttum sem að framan greinir er ekki fyrir hendi um þá  hættu fyrir umhverfið sem af starfseminni stafar  Því gerir Landssambandið kröfu um að  rannsóknir fari fram um far laxa fyrir Austfjörðum og þær birtar í matsskýrslu. Krafan byggir á hinni víðtæku rannsóknarskyldu sem l. nr. 60/2013 mæla fyrir um.  Þannig verði grundvöllur m.a. skapaður til að meta megi þau umhverfisspjöll sem norskættaðir strokulaxar úr eldinu kunna að valda íslenskum laxastofnum í ám á öllu svæðinu. Þá verði í frummatsskýrslu fjallað um neikvæð samfélagsleg áhrif þess komi eldislax fram í austfirskum laxveiðiám þar sem ímynd stangveiði er góð og veiðileyfin verðmæt og eftirsótt af þeim sökum. 

 

Reynsla Norðmanna, Skota og Íslendinga af eldi laxa í sjó gefur ekki tilefni til að deila lengur um hvort eldislaxar munu sleppa úr kvíum framkvæmdaraðila. Bent er á umhverfisslys hjá Fiskeldi Austfjarða nú nýverið, þegar gat kom á kví með 100 þúsund regnbogasilungum,  sem er ennþá enn eitt tilfellið. http://www.ruv.is/frett/um-40-cm-gat-a-eldiskvi-i-berufirdi. Því er ljóst að óvissan ríkir fyrst og fremst um það magn sem mun strjúka úr kvíum sjókvíaeldisfyrirtækja.  Rannsóknir benda  hinsvegar til hinna neikvæðu áhrifa sem strokulax úr eldinu mun hafa á vistkerfi Íslands. Staðfestar upplýsingar liggja fyrir um neikvæð umhverfisáhrif laxeldis í norskum ám eins og sjá má í skýrslu norsku náttúrfræðistofnunarinnar NINA:

http://www.nina.no/Aktuelt/Nyhetsartikkel/ArticleId/3984/Kun-en-tredjedel-av-de-125-laksebestandene-var-uten-genetisk-spor-av-romt-oppdrettslaks.      Norðmenn hafa lýst þungum  áhyggjum vegna þessa ástands.    Afleiðingarnar á Íslandi yrðu þó sýnu verri þar sem Norðmenn heimila ekki eldi framandi laxastofna líkt og hér er gert.

 

Stofnar villtra laxfiska

Í fyrirliggjandi áætlununum að matsskýrslu er mjög rýr og villandi umfjöllun um lax- og silungsveiðiár á áhrifasvæði framkvæmdanna.  Í matsáætlun vegna áforma í Berufirði segir svo:

 „Í Berufirði eru tvær silungsár, Fossá og Berufjarðará. Næstu laxveiðiár við Berufjörð eru Rangárnar svo og Vopnafjarðarárnar. Í Breiðdalsá hafa verið stundaðar seiðasleppingar í þeirri von að hægt verði að ná þar upp laxveiði."

 

Hér virðist framkvæmdaraðila hafa yfirsést að í Álftafirði sem er í nágrenni sunnanvert við Berufjörð er laxveiðiáin Selá með um 100 laxa meðalveiði og Hofsá sem er gjöful silungsveiðiá en beggja er að engu er getið í matsáætlun.  Þá má einnig nefna Laxá í Nesjum sem er allnokkru sunnar. Umfjöllun framkvæmdaraðila um Breiðdalsá virðast vera sett fram í því augnamiði að kasta rýrð á verðmæta og vinsæla laxveiðiá sem skapar mikil verðmæti fyrir landeigendur í Breiðdal.  Þau ummæli ásamt rangfærslum framkvæmdaraðila dæma sig sjálf og eru til vitnisburðar um áreiðanleika þeirra fullyrðinga um önnur matsefni sem fram koma í fyrirliggjandi matsáætlun.

 

Eldisstofn og lífmassi

Í þeirri matsáætlun sem fyrir liggur kemur fram að fyrirhugað sé að nota svonefndan Saga eldisstofn í áformaðri framkvæmd. Stofninn Saga er norskur laxastofn sem fluttur var til landsins seint á níunda áratug síðustu aldar.  Stofninn mun vera kynbættur m.a. með það að markmiði að hann verði síður kynþroska í eldinu.  Nú hefur komið í ljós að strokulaxar af Saga eldisstofni verða kynþroska og hafa alla burði til að hrygna í ferskvatni.  Fyrirtækið Stofnfiskur sem framleiðir Saga stofninn hefur einnig hafið framleiðslu á geldfiski sem ekki verður kynþroska.  Fyrirtækið flytur nú árlega nokkurt magn af geldhrognum til viðkvæmra svæða í Noregi þar sem ekki eru veitt viðbótarleyfi til að ala frjóan eldislax í sjókvíum.  Í matsáætlun er engin umfjöllun um kosti þess að nota geldlax í eldinu þótt slík ráðstöfun myndi draga verulega úr umhverfisáhættu vegna starfseminnar.  Rétt er í þessu sambandi að benda á að óheimilt er með öllu að setja út lax af erlendum uppruna til eldis í Noregi.  Landssambandið  gerir kröfu um að Skipulagsstofnun leggi fyrir Laxa fiskeldi að fjallað verði um kosti þess að notaður verði geldstofn í sjókvíaeldi fyrirtækisins í Berufirði. Í gildandi lögum um fiskeldi nr.71/2008 er heimildarákvæði til handa ráðherra að kveða í reglugerð á um skyldu til notkunar geldstofns í sjókvíaeldi.  Álit Skipulagsstofnunar er eðlilegur undanfari þess að ráðherra grípi til þeirrar heimildar.  Til að svo megi verða ber nauðsyn til að fjallað verði ítarlega um þennan þátt málsins í frummatsskýrslu.

 

Fram kemur í matsáætlun að þéttleiki eldisfiskjar í sjókvíum fyrirtækisins verði allt að 25kg/m3.  Mun það vera rúmlega tvöfalt það magn sem þekkist hérlendis. Þessi mikli ásetningur mun augljóslega leiða til aukinnar hættu af völdum sjúkdóma og sníkjudýra í eldinu sem eykst með þéttleika eldisdýra í þauleldi.  Engin haldbær umfjöllun er um þennan þátt málsins í matsáætlun.  Þá virðist fyrirtækið gera ráð fyrir að fóðurstuðull verði aðeins 1.2 kg. fóðurs á framleitt kg.  Ekki kemur fram hvort þessi lági fóðurstuðull er byggður á rauntölum í laxeldi á Íslandi eða aðeins um óskhyggju að ræða.  Rangur fóðurstuðull gefur að sjálfsögu ranga mynd af því magni úrgangsefna frá eldinu sem falla til viðtakans.  Þessa tölu þarf framkvæmaaðili að rökstyðja í frummatsskýrslu svo mark sé á takandi.  Þá má einnig leiða líkum að því að svo ákaft þauleldi hafi neikvæð áhrif á velferð eldisdýra.  Auknar líkur eru á vandamálum vegna laxalúsar, sníkjudýra og sjúkdóma.  Tölur sem fram eru settar í matsáætlun um möguleg afföll í eldinu verður því að skoða í því ljósi. Umfjöllun  framkvæmdaraðilans um þessa þætti málsins er næsta ótrúverðug og ekki í samræmi almenna reynslu þegar  þéttleiki eldisdýra er með mesta móti líkt og þarna er áformað.

 

Hafís

Í kafla 2.4 kemur fram að mögulegt er að  hafís reki á svæðið.  Ljóst má vera að gegn slíkum náttúröflum duga boðaðar mótvægisaðgerðir framkvæmdaraðila skammt.  Þá kemur einnig fram í matsáætlunum að vegna rennslis ferskvatns til fjarðarins megi búast við hættu af völdum lagnaðaríss á báðum framkvæmdasvæðunum.  Segir framkvæmdaraðilinn þetta ekki vandamál þar sem ísinn brotni á sjókvínni og fljóti meðfram henni.  Í slíkum tilvikum verður óhjákvæmilega að reikna með að ísinn, þegar hann brotnar á kvínni og rekur meðfram henni, muni ísjakar rífa netpokann þannig að eldislax geti sloppið til hafs.

 

Lagasjónarmið

Landssamband veiðifélaga vísar til þess að í gildi eru sérlög nr. 61/2006 um lax og silungsveiði sem sett eru sérstaklega til verndar villtum laxastofnum á Íslandi.  Skyld ákvæði er að finna í l. nr. 58/2006 um fiskrækt sem banna flutning laxfiska milli veiðivatna.   Ákvæði framangreindra laga ber því einnig að leggja til grundvallar þegar varúðarreglunni er beitt við meðferð umhverfismats enda ganga sérlög framar öðrum lögum. 

 

Þá er einnig vísað til núgildandi laga um náttúrvernd nr. 60/2013 og ýtrustu kröfu um málsmeðferð á grundvelli þeirra laga.

Fh. Landssambands veiðifélaga

Jón Helgi Björnsson, formaður

 

 

Hér er hægt að sækja viðkomandi athugasemdir:

Pdf-skjal

Word-skjal