Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
28. júlí 2016

Meira af stórlaxi en síðustu ár

Það veiðist minna af smálaxi í ár en í fyrra segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga. Meira ber hinsvegar á stórlaxi en undanfarin ár og segir formaðurinn það kannski árangur af því að menn séu að veiða og sleppa.

 

Ytri Rangá ber höfuð og herðar yfir aðrar laxveiðiár á Íslandi það sem af er sumri. Samkvæmt nýjum veiðitölum frá Landssambandi veiðifélaga er veiðin í Ytri - Rangá og Hólsá komin í þrjúþúsund tvöhundruð og fimmtíu laxa en enn er langt í land með að ná heildarveiðinni þar  í fyrra sem var átta þúsund og áttahundruð laxar. Miðfjarðará er komin í annað sæti yfir veidda laxa og hefur tekið góðan kipp síðustu daga en þar veiddust fimmhundruð þrjátíu og sjö laxar á einni viku. Veiðin þar er komin í 1996 laxa. Í þriðja sæti er Eystri Rangá með átjánhundruð áttatíu og fimm laxa, Blanda er þar næst með sextánhundruð áttatíu og einn og Þverá og Kjarrá eru í fimmta sæti með þrettán hundruð laxa. Aðrar ár eru ekki komnar yfir þúsund laxa múrinn. 

 

Eins og staðan er núna lítur ekki út fyrir eins mikla laxaveislu í sumar og var í fyrra. Eða hvað? "Nei það lítur út fyrir að það verði heldur minni smálax en var í fyrr," segir Jón Helgi Björnsson formaður Landsambands veiðifélaga. "Það er nú bara út af köldu vori sem það var gott í fyrra.  En aftur á móti er feykilega mikið af stórlaxi og mikið meira en verið hefur síðustu ár.  Ég held að á endanum verði þetta bara ansi gott veiðisumar og bara gaman að sjá hvað stórlaxinn hefur skilað sér. Og kannski eru menn að uppskera svolítið að hafa verið að sleppa stórlaxi undanfarin ár," segir Jón.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is