Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
21. júlí 2016

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 20. júlí síðastliðinn. Áfram eru það fimm ár sem hafa farið yfir 1000 laxa markið en búast má við að það fjölgi í þeim hóp í næstu samantekt veiðitalna eftir viku. Efst á lista okkar þessa vikuna er Ytri-Rangá sem hefur nú farið yfir 2000 laxa markið og er komin í alls 2549 laxa en á einni viku veiddust 829 laxar. Þær ár sem á eftir koma eru:

2. Eystri-Rangá er komin í 1633 laxa - vikuveiði 191 laxar.

3. Blanda er komin í 1492 laxa - vikuveiði 192 laxar.

4. Miðfjarðará er komin í 1459 laxa - vikuveiðin 382 laxar.

5. Þverá og Kjarará er veiðin alls 1153 laxar - vikuveiðin 150 laxar.

Veiðin hefur gengið misvel síðastliðna viku og hefur vatnsbúskapur haft þar töluverð áhrif í sumum vatnakerfum, vatnsmagn hefur minnkað og veiði samhliða. Þar vonast menn eftir úrkomu sem hefur látið bíða eftir sér sum staðar. Hinsvegar þá er þetta blessunarlega ekki alstaðar og víða enn ágætur vatnsbúskapur og ekki dregið úr veiði sökum þessa áhrifaþáttar. 

 

Ef heildarveiði tíu efstu ánna á listanum okkar er lögð saman þá hafa veiðst alls 11.435 laxar að kvöldi miðvikudags 20 júlí en á einni viku veiddust samanlagt 2347 laxar. Eftir góða byrjun á þessu veiðitímabili hefur sumstaðar hægt á veiði m.a. sökum vatnsbúskaps eins og fyrr hefur verið nefnt og jafnframt hefur borið á að smálax hafi skilað sér í minna magni undanfarið í sum vatnakerfi. Þetta er þó töluvert mismunandi eftir vatnakerfum og sumstaðar virðist smálax skila sér ágætlega eins og sést hefur bæði í veiði og í fiskiteljurum. 

 

Nú er beðið eftir því hvað skilar sér af smálaxi í stærsta strauminum, hann mun vera á morgun fimmtudag og ekki ólíklegt að laxagöngur séu að skila sér upp í árnar á 4-5 daga tímabili í kringum stórstreymi. Árnar okkar eru mjög fjölbreyttar, mismunandi aðstæður í þeim og til dæmis í einni á kemur göngufiskur fljótt fram í veiði á meðan það getur tekið marga daga í öðrum ám. 

 

Þess má geta að víðast hvar er töluvert af laxi í ám enda skilaði sér vel af stórlaxi þetta árið og gekk fiskur snemma upp í ár. Það verður áhugavert að sjá hvernig veiðin þróast þegar vatnsbúskapur batnar og ekki væri verra ef smálaxinn skilar sér vel á næstunni. Sjáum hvað setur.

 

Athygli er vakin á því að þó við erum með 25 gagnagrunnsár, sem við söfnum vikulega gögnum frá, þá er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok miðvikudags kvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari.

 

Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling eða hringja/senda sms í síma 852-3398.