Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
7. júlí 2016

Nýjar veiðitölur

Nú hefur laxveiðin í tveimur ám farið yfir 1000 laxa markið en það eru árnar Eystri-Rangá með 1111 laxa, bætir við sig 611 löxum á einni viku og Blanda þar sem vikuveiðin var 258 laxar og er samtals með 1020 laxa. Ytri-Rangá er skammt undan en veiðin á einni viku var 439 laxar og samtals hafa veiðst 916 laxar. Þegar lögð er saman heildarveiðin í þeim 10 efstu ám í samantektinni þessa vikuna hafa samtals 6373 laxar veiðst að kvöldi miðvikudags. Á svipuðum tíma í fyrra höfðu veiðst alls 2776 laxar og því ljóst að veiðin er rúmlega tvöfalt meiri eins og staðan er núna.

Veiði hefur nú hafist í öllum 25 gagnagrunnsám okkar en þær sem bættust við eru Breiðdalsá með 38 laxa sem lofar mjög góðu en á svipuðum tíma í fyrra höfðu veiðst 6 laxar. Í Svartá í Húnavatnssýslu hafa veiðst 30 laxar samanborið við 6 laxa á nánast sama tíma og á sl. veiðitímabili. Hrútafjarðará komin með 38 laxa sem er rúmlega þrisvar sinnum meiri veiðin en á sama tíma í fyrra. Þess má geta að stutt er síðan þessar þrjár ofangreindu ár opnuðu og veiðin hefur átt sér stað á færri dögum fyrir vikið.

 

Þetta veiðitímabil lofar góðu og nánast án undantekninga eru veiðimenn ánægðir með þróun mála. Ágætis vatnsbúskapur er í flestum ám en sumstaðar hefur vatnsmagn í ám verið að minnka en þó ekki það mikið að það hafi mikil áhrif á veiði enn sem komið er. Hinsvegar þá er úrkoma í kortunum og líklegt að vatnsbúskapur batni í kjölfarið.

 

Svo virðist sem laxar hafi gengið óvenju snemma upp í margar ár og hafa sumir af því áhyggjur að það gæti dregið fyrr úr laxagöngum fyrir vikið. Vandi er um slíkt að spá en vonandi gengur áfram jafn vel og veiði ber vitni um þessa dagana.

 

Athygli er vakin á því að þó við erum með 25 gagnagrunnsár, sem við söfnum vikulega gögnum frá, þá er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok miðvikudags kvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari.

 

Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling eða hringja/senda sms í síma 852-3398.