Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
29. júní 2016

Nýjar veiðitölur

Nú hefur veiði hafist í flestum þeim 25 laxveiðiám sem Landssamband veiðifélaga hefur fylgst með undanfarin áratug. Þær ár sem opnuðu síðast liðna viku voru Víðidalsá, Selá í Vopnafirði, Hofsá í Vopnafirði og Ytri-Rangá. Veiðin fer mjög vel af stað í Víðidalsá, alls 128 laxar, samanborið við 40 laxa 1. júlí í fyrra. Veiði í Selá í Vopnafirði lofar góðu með 32 löxum og það sama má segja um Hofsá í Vopnafirði sem komin er í 25 laxa.

 

Óhætt er að segja að veiðin í Ytri-Rangá hefjist einstaklega vel en þar hafa veiðst 477 laxar sem er 370 löxum meiri veiði en 1. júlí 2015 en þá höfðu veiðist 107 laxar. Þetta er besta byrjun veiði í Ytri-Rangá sl. áratug eða frá því að Landssamband veiðifélaga hóf að safna veiðitölum árið 2006.

 

Veiðin heldur áfram að ganga vel í fjölmörgum vatnakerfum og má þar nefna m.a eftirfarandi.

 

Blanda 726 laxar, bætir við sig 191 laxi sl. viku og er veiðin þrefalt meiri en á sama tíma í fyrra. Veiði gengur vel í Eystri-rangá en þar hafa veiðst rúmlega 500 laxar. Þverá og Kjarará 462 laxar bætir við sig 159 laxi sl. viku. Norðurá 450 laxar, bætir við sig 170 löxum sl. viku. Haffjarðará 322 laxar, bætir við sig 182 löxum sl. viku sem er rúmlega þrefalt meira en hafði veiðst á svipuðum tíma í fyrra. Veiðin farin vel af stað í Víðidalsá en þar höfðu veiðst 128 laxar að kvöldi miðvikudags sem er margföld veiði samanborið við svipaða dagssetningu í fyrra.  

 

Viðmælendur eru sammála um að bæði eins og tveggja ára lax skilar sér vel haldinn úr hafi þetta árið og töluvert er um að lax hafi gengið óvenju snemma upp í vatnakerfin þetta árið. Veiðin þetta árið gengur mjög vel og verður spennandi að sjá hvernig framhaldið verður.

 

Landssamband veiðifélaga hefur um áratug fylgst með veiði í 25 ám. Veiðitölum er safnað hvert miðvikudagskvöld og eru þær  birtar á heimasíðu Lv, angling.is og jafnframt á síðu 322 á textavarpinu.

 

Athygli er vakin á þeim möguleika að hægt er að bera saman vikulegar veiðitölur í mismunandi vatnakerfum allt frá árinu 2006. Til gamans má nefna Norðurá í Borgarfirði þar sem veiðin er komin í alls 450 laxa en veiðin var á svipuðum tíma undanfarin áratug eftirfarandi:

 

2015 - 1. júlí   285 laxar.    Lokatölur 2886 laxar

2014 - 2. júlí   195 laxar.    Lokatölur 924 laxar

2013 - 26. Júní 350 laxar.   Lokatölur 3351 laxar

2012 - 27. júní  203 laxar.   Lokatölur 953 laxar

2011 - 29. júní 272 laxar.    Lokatölur 2134 laxar

2010 - 30. júní 400 laxar.    Lokatölur 2279 laxar

2009 - 1. júlí    352 laxar.    Lokatölur 2408 laxar

2008 - 2. júlí    470 laxar.    Lokatölur 3307 laxar

2007 - 27. júní  63 laxar.     Lokatölur 1456 laxar

2006 - 28. júní  275 laxar.   Lokatölur 2247 laxar