Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
22. júní 2016

Veiðitölur 2016

Nú eru laxveiðiárnar að opna fyrir veiði hver af annari og hefur veiði hafist í 17 af þeim 25 ám sem Landssamband veiðifélaga hefur fylgst með í rúman áratug. Veiðitölum er safnað hvert miðvikudagskvöld og eru þær  birtar á heimasíðu Lv, angling.is og jafnframt á síðu 322 á textavarpinu. Tölur hafa borist úr flestum þeim ám sem veiði hefur hafist og gefa tölur ástæðu til bjartsýni fyrir komandi veiðitímabil enda fer veiði vel af stað og lofar góðu. Veiðin gengur vel í Blöndu sem bætir við sig 233 löxum síðast liðna viku og er komin í alls 535 laxa. Til samanburðar má geta þess að veiðin í Blöndu var samtals 124 laxar á nánast sama tíma í fyrra. Veiðin hefur gengið vel þrátt fyrir að undanfarna daga hefur töluvert meira vatn verið í Blöndu sökum tímabundinar aukningu í raforkuframleiðslu Blönduvirkjunar. Nú hyllir hinsvegar undir að þessari tímabundna aukna miðlun vatns ljúki og skilyrði til veiða munu án efa batna fyrir vikið.

Villtur lax © Sumarliði Óskarsson
 

Veiðin í Þverá og Kjarará gengur vel og er komin í 302 laxa en alls veiddust 138 laxar sl. viku. Norðurá í Borgarfirði er komin í alls 280 laxa sem er 125 löxum meira en hafði veiðst á sama tíma í fyrra. Nú stendur yfir veiði á klakfisk í Eystri-Rangá og voru 260 laxar komnir á þriðjudagskvöld en þær tölur verða uppfærðar á morgun og ekki ólíklegt að veiðin sé komin í tæplega 300 laxa að kvöldi miðvikudags. Það er óhætt að segja að þessar veiðar gefa góð fyrirheit um framhaldið.

 

Veiðin í Miðfjarðará gengur mjög vel, 132 laxar veiddust sl. viku og alls hafa veiðst 163 laxar en það er um fjórfalt meiri veiði en á sama tíma í fyrra en þá höfðu veiðst 42 laxar. Veiði er nú hafin í Vatnsdalsá og byrjar vel en alls hafa veiðst 56 laxar sem er einning um fjórfalt meiri veiði en á sama tíma í fyrra og lofar það góðu.

 

Veiði í Laxá í Aðaldal er hafin og hafa veiðst 29 laxar sem gefur góð fyrirheit enda meiri veiði en hefur verið á þessum tíma undanfarin áratug. Veiði í Laxá á Ásum fer vel af stað og hafa veiðst 24 laxar sem er rúmlega helmingi meira en á svipuðum tíma í fyrra. Fnjóská bætir við sig 25 löxum sl. viku og er komin í alls 34 laxa.

 

Veiði hófst 14 júní í Haffjarðará og óhætt að segja að þar byrjar veiði afar vel en á miðvikudagskvöldi höfðu 140 laxar veiðst. Þetta er mun meiri veiði en á svipuðum tíma undanfarin rúman áratug og til samanburðar er þetta rúmlega þreföld veiði ef miðað er við svipaðan tíma í fyrra. Mikið af laxi hefur sést um alla á og horfur bjartar í upphafi veiðitímabils.

 

Viðmælendur eru ánægðir með upphaf veiðitímabils, stórlax og smálax koma vel haldnir úr hafi og eru menn bjartsýnir á framhaldið en það kemur ekki á óvart enda langflestir veiðimenn annálaðir bjartsýnismenn og er það vel.