Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
21. júní 2016

Vernda verði Mývatn fyrir ágangi og úrgangi

Nauðsynlegt er að hreinsa fráveituvatn til að minnka álag á Mývatn og þá eru sterkar vísbendingar um að fjölgun ferðamanna auki álag á lífríki vatnsins. Þetta kemur fram í skýrslu samstarfshóps um málefni Mývatns sem hefur verið skilað til umhverfisráðuneytis.

 

Þar kemur fram að talið sé að neikvæðar breytingar í lífríki Mývatns bendi til næringarefnaauðgunar. Nauðsynlegt sé hreinsa bæði nitur og fosfór úr fráveituvatni til að minnka álag á Mývatn og að fráveituframkvæmdir í Reykjahlíð eigi að hefjast nú í sumar.

Mývatn

Tryggja verði aðdráttarafl að náttúruperlum

Ábendingar skýrsluhöfunda eru meðal annars þær að sterkar vísbendingar séu um að fjölgun ferðamanna auki álag á lífríki Mývatns með vaxandi losun næringarefna í vatnið. Mývatn og Laxá eru meðal helstu og þekktustu náttúruperla Íslands og skapi tekjur fyrir þjóðarbúið. Eðlilegt hljóti því að teljast að stórauknum tekjum af ferðamannastraumi verði varið að einhverju leyti til vendunar helstu náttúruperla til að tryggja aðdráttarafl þeirra sem og að sýna fram á að Íslendingar hlúi vel að þeim, segir í skýrslu.

 

Gera þurfi úrbætur og efla fræðslu

Þá sé rétt að gera heildstæða áætlun um úrbætur í fráveitumálum sem fyrst. Þó fyrir liggi gagnleg tillaga um hreinsivirki í Reykjahlíð, sem sveitarstjórn Skútustaðahrepps hefur látið vinna, sé rétt að skoða einnig aðrar lausnir, svo sem að aka skólpi burt af svæðinu og eða dæla því niður og að ríkið eigi að koma að gerð áætlunar um fráveitumál ásamt sveitarstjórn.

 

Skýrsluhöfundar telja æskilegt að efla fræðslu til íbúa og ferðamanna. Það geti reynst skjótvirk leið til bættrar umgengni og að halda áhrifum manna í lágmarki. Varað er þó við væntingum um að hægt sé að snúa neikvæðri þróun lífríkisins á skömmum tíma. Til þess sé vistkerfi Mývatns of flókið og sveiflukennt, sem geri erfitt um vik að greina frumorsakir neikvæðra breytinga, segir í skýrslu.

 

Samstarfshópinn skipuðu átta fulltrúar frá stofnunum, hagsmuna- og umhverfisverndarsamtökum, Skútustaðahreppi og ráðuneytinu. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is

 

Hér er hægt að sækja skýrslu Samstarfshóps um málefni Mývatns; ástand mála, orsakir vanda og mögulegar aðgerðir. Pdf-skjal.