Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
13. júní 2016

Um 40 cm gat á eldiskví í Berufirði

Fiskeldi Austfjarða tilkynnti Fiskistofu í dag að við köfun hefði fundist gat á einni af eldiskvíum fyrirtækisins í Berufirði. Sem kunnugt er hefur regnbogasilungur veiðst í Berufirði og á Djúpavogi; eldisfiskur sem hefur sloppið úr kvíunum.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu er gatið á kvínni um 40 sentímetrar í þvermál en ekki er enn vitað hve mikið af fiski hefur sloppið úr kvínni. Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða, segir að gatið hafi ekki fundist við reglubundna köfun fyrir um mánuði síðan en rúmur hálfur mánuður er síðan fyrst fór að bera á regnbogasilungi í höfninni á Djúpavogi. Fiskeldi Austfjarða hefur lokað gatinu, virkjað viðbragðsáætlun og lagt út net við kvíarnar samkvæmt tilmælum frá Fiskistofu.

Eldiskvíar í Berufirði Mynd© Skjáskot Ruv.is
 

Guðmundur segir að netin í kvíunum séu úr gríðarsterku efni. Gatið sé um einum metra undir sjávarmáli og líklegt sé að skrúfa á utanborðsmótor hafi skorið netið í sundur. Fyrirtækið sé búið að láta kafa í næstum allar kvíarnar og telur að skýringin sé fundin.

 

Regnbogasilungur fjölgar sér ekki í íslenskri náttúru og ekki er vitað til þess að eldisfiskur úr Berufirði hafi verið sýktur. Málið er þó hið vandræðalegasta fyrir Fiskeldi Austfjarða sem en nú að skipta regnbogasilungnum út fyrir norskan eldislax sem myndi hafa meiri áhrif á villtan íslenskan laxastofn ef hann myndi sleppa. Guðmundir segir að fyrirtækinu þyki mjög slæmt að fiskur hafi sloppið enda geri það allar ráðstafanir til að fyrirbyggja slíkt.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is