Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
10. júní 2016

Velja þurfi á milli fiskeldis og villtra laxa

Margt bendir til þess að regnbogasilungur hafi sloppið úr eldiskvíum í Berufirði. Formaður Veiðifélags Breiðdæla telur að efla þurfi eftirlit með fiskeldi á Austfjörðum, ekki síst þegar norskur, kynbættur eldislax verður kominn í kvíarnar.

Fiskeldi Austfjarða elur regnbogasilung í sjókvíum í Berufirði og fyrir um hálfum mánuði töldu íbúar á Djúpavogi sig einmitt sjá regnbogasilung í höfninni. Fiskistofa kannaði málið og í gær var net lagt út í botni Berufjarðar. Í netið veiddust fimm fiskar og telja sérfræðingar sem skoðuðu myndir af þeim í dag að um sé að ræða regnbogasilung og greinilega eldisfisk með eyddan sporð og ugga.

 

Eldiskvíar í Berufirði Mynd© Skjáskot Ruv.is

Næst við Berufjörð er Breiðdalur en þar er mikið stunduð stangveiði. Regnbogasilungur er ekki talinn geta náð fótfestu en formaður Veiðifélags Breiðdæla, Gunnlaugur Stefánsson,  hefur áhyggjur af áformum um að skipta honum út fyrir eldislax. ,,Og það verður eins með laxinn. Það verður engin breyting á þegar honum verður skipt inn fyrir regnbogasilunginn. Hann heldur áfram að sleppa. Það verður að velja milli þess hvort við ætlum að verja og efla íslenskan villtan laxastofn. Eða hvort við ætlum að fórna honum fyrir fiskeldið.“

 

Aðspurður um hvort engar raunhæfar ausnir séu til staðar segir Gunnlaugur. ,,Á meðan fiskeldið er og er að fjara út vonandi þá verður eftirlitið að vera eins öflugt og kostur er. Hingað til hefur það verið mjög bágborið.“

 

Forsvarsmenn Fiskeldis Austfjarða vildu bíða með að tjá sig þar til óyggjandi greining á meintum regnbogasilungi lægi fyrir. Kafarar hafa skoðað kvíarnar og ekki fundið neitt óeðlilegt. Sú kenning hefur verið nefnd að mögulega hafi fiskur sloppið í óveðri í vetur en fiskeldismenn vildu ekki staðfesta það.

 

Veiðifélg Breiðdæla sendi frá sér eftirfarandi harðorða ályktun á aðalfundi félagsins í vikunni:

 

,,Fiskverksmiðjan, Fiskeldi Austfjarða, kynnti með auglýsingu 29. janúar 2016 áform sín um að stofna til risalaxeldis í Seyðisfirði, Norðfjarðarflóa og Stöðvarfirði með tíu þúsund tonnum í kvíum af norskum kynbreyttum laxastofni í hverjum firði til viðbótar við áætlun um mörg þúsund tonna framleiðslu úr kvíum í Berufirði.

 

Rannsóknir hafa leitt í ljós, að úrgangur frá 10.000 tonna laxeldi jafnist á við skolpfrárennsli frá 150.000 manna borg. Það ógnar lífríkinu á stórum svæðum umhverfis kvíarnar með óafturkræfum afleiðingum fyrir fuglalíf og uppeldisstöðvar sjávar-og vatnafiska.

 

Þá er einnig staðfest, að a.m.k. einn lax sleppi að meðaltali fyrir hvert tonn í eldi. Samkvæmt þeirri reynslu sleppur því úr fyrirhuguðu risalaxeldi á Íslandi rúmlega sami fjöldi laxa og nemur heildarstangaveiði í landinu á einu sumri. Í Noregi eru nú yfir 100 laxveiðiár ónýtar vegna laxaeldis í sjókvíum.

 

Kynbreyttur laxastofn af útlenskum uppruna er óafturkræf ógn við íslenska laxastofninn og gengur af honum dauðum, ef svona risaáform ganga eftir til viðbótar laxeldisáætlunum á öðrum svæðum. Þá axla fiskeldisverksmiðjurnar enga ábyrgð af eignaspjöllum og skaðvænlegum áhrifum á umhverfið. 

 

Reynslan af regnbogaeldinu í Berufirði staðfestir að mikið magn af regnbogasilungi sleppur eftirlitslaust í sjóinn og án þess að nokkur gangist við ábyrgð á því.

 

Reynsla Norðamanna af laxeldi í sjókvíum hefur leitt í ljós endalausa baráttu við smitsjúkdóma, erfðablöndun í villtan laxastofn og lúsafaraldur sem ógnar líffræðilegum fjölbreytileika.

 

Fiskeldisverksmiðjan keppist nú við að helga sér svæði í austfirskum fjörðum endurgjaldslaust fyrir risaáformin í laxeldinu. Í Noregi verða fyrirtækin að greiða háar fjárupphæðir fyrir útgefin starfsleyfi og nýtingu sjávar til eldisins.

 

Að baki fyrirhuguðum fiskeldisáformum eru að stórum hluta útlenskir fjárfestar með erlent áhættufjármagn og sjá sér hag í því að nýta sér íslenskan sjó endurgjaldslaust og veikburða lagaumhverfi sem veitir hvorki aðhald með virku eftirliti né skyldar fiskeldisfyrirtækin til ábyrgðar á verkum sínum.   

 

Alþingismenn og flest íslensk umhverfisverndarsamtök sofa værum blundi og virðast láta sér í léttu rúmi liggja aðför að lífríki náttúrunnar með risalaxeldi í íslenskum sjó.

 

Veiðifélag Breiðdæla varar alvarlega við þessum áformum öllum og biður um að náttúran til lands og sjávar verði græðginni ekki að bráð," segir í ályktuninni. 

 

Hér er hægt að sjá myndskeið með frétt.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is