Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
10. júní 2016

Vatnsþurrð í lækjum í Landbroti

Á vordögum 2016 bárust fréttir frá Landbroti í Vestur-Skaftafellssýslu að vatn væri farið að þrjóta í lækjum sem eiga upptök sín í lindum undan Eldhrauni. Í vettvangsferð starfsmanna Veiðimálastofnunar í lok maí mátti sjá yfir 20 km af þurrum lækjarfarvegum í Tungulæk og Grenlæk.  Lækir þessir hafa mikla sérstöðu meðal íslenskra áa og hafa til skamms tíma verið aflasælustu sjóbirtingsveiðiár landsins. 

Þar sem áður var Stórifoss í Grenlæk eru nú þurrir klettar og tjörn þar sem áður var djúpur straumvatnshylur. Mynd© Veiðimálastofnun.

Öll helstu hrygningarsvæði sjóbirtings og stór hluti uppeldissvæða sjóbirtingsseiða í Grenlæk eru þurr. Í maí eru kviðpokaseiði laxfiska grafin í árbotninn og þau ná ekki að forða sér annað ef vatn þrýtur og því má ætla að þau séu meira og minna öll dauð.  Seiði og stærri fiskar geta mögulega fært sig til, en að líkindum hafa þeir fiskar sem voru á vatnsþurrðarsvæðum þegar vatn þraut einnig flest allir drepist. Mest eru þetta eins árs sjóbirtingsseiði og allt upp í þriggja ára seiði.  Þörungar og smádýralíf hefur að mestu  farið sömu leið. 

 

Ástandið á svæðinu virðist svipað því sem var vorið 1998 en þá voru um 20 km af farvegum Grenlækjar og Tungulækjar þurrir í um tvo mánuði.  Það olli verulegu tjóni á lífríki lækjanna og fiskdauða.  Í kjölfarið varð mikill samdráttur í veiði. 

 

Eins og Veiðimálastofnun hefur ítrekað bent á, nú síðast í bréfi til ráðherra umhverfis- og auðlindamála í maí sl. er brýn þörf á aðgerðum. Í fyrstu þarf bráðaaðgerðir til að greiða vatni leið úr Skaftá út á Eldhraunið og tryggja rennslisleiðir sem nýtast upptakalindum lækja í Landbroti og Meðallandi.  Finna þarf leiðir sem til frambúðar tryggja háa grunnvatnsstöðu í hraunum á svæðinu svo vatnsrennsli til lindarvatna  verði nægt til að viðhalda ríkulegu lífríki þeirra og fiskgengd.  Frekari upplýsingar má sjá í meðfylgjandi skjali (pdf).

 

Þessa frétt er að finna á vef Veiðimálastofnunar