Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
10. júní 2016

Grunur um að eldisfiskur hafi sloppið

Grunur leikur á að regnbogasilungur hafi sloppið úr eldiskvíum í Berufirði, mögulega í óveðri í vetur. Sviðstjóri hjá Fiskistofu segir að regnbogasilungur eigi ekki að geta náð fótfestu og valdi ekki vandræðum til lengri tíma. Hann gæti hinsvegar skapraunað stangveiðimönnum sem kunna að veiða hann í nálægum ám. Fiskeldi Austfjarða segir enn óstaðfest að þarna sé eldisfiskur á ferð. 

 

 

Fyrir um hálfum mánuði tóku íbúar á Djúpavogi eftir því að stórir laxfiskar héldu til í höfninni. Sumir þóttust sjá þar regnbogasilung sem Djúpavogsbúar ættu að þekkja vel enda ræktaður í Berufirði og unninn í fiskvinnslu á staðnum. Þegar fréttastofa hafði samband við Fiskeldi Austfjarða snemma í síðustu viku vegna málsins töldu þeir ólíklegt að fiskur hefði sloppið og líklega væri þarna á ferð sjóbirtingur eða hnúðlax. Dæmi væri um að hnúðlax hefði veiðst í nágrenninu og verið talinn regnbogasilungur.

 

Heimamenn sem sumir höfðu veitt fiskinn á stöng í höfninni þóttust hins vegar þekkja regnbogasilung og tilkynntu málið. Fiskistofa sendi í gær eftirlitsmann á staðinn.  Hann ræddi við fólk og skoðaði mynd af veiddum fiski sem var greindur sem regnbogasilungur. Net var lagt í botni Berufjarðar í gær og dregið aftur um 12 tímum síðar og veiddust þar fimm fiskar sem talið er að séu regnbogasilungar en sérfræðingur hafði fyrir fréttir ekki fengið myndir af fiskunum.

 

Guðni Magnús Eiríksson stýrir lax- og silungsveiðisviði Fiskistofu sem gaf í morgun út tilkynningu þar sem fullyrt er að regnbogasilungur hafi veiðst í Berufirði. ,,Ennþá er afar óljóst um umfangið það er að segja hversu mikið af fiski þarna er en regnbogasilungur er ekki hluti af íslenskri náttúru þannig að það er ljóst að hann er úr eldi,“ segir Guðni.

 

Hann segir að hægt væri að leggja net og reyna að ná sem mestu af eldisfiskinum en það sé varasamt enda göngutími lax og silungs og slíkt átak gæti bitnað á villtum stofnum. Fiskistofa vilji rannsaka umfangið og fá frekari skýringar áður en gripið verði til aðgerða. Ekkert bendi til þess að eldisfiskurinn sé sjúkur og þá sé ekki vitað til þess að regnbogasilungur hafi fjölgað sér í íslenskri náttúru og því líklega tímabundið vandamál en gæti skaðað ímynd svæðisins. ,,En þeir sem að vilja veiða villtan fisk og fara til veiða í nærliggjandi ám kunna að veiða svona regnbogasilung sem að veiðimenn eru ekki spenntir fyrir,“ segir Guðni.

 

Guðni segir að Fiskistofa hafi fengið þau svör frá Fiskeldi Austfjarða að hafi fiskur sloppið hafi það mögulega gerst í óveðri í vetur. Fiskeldismenn vildu í morgun bíða með að tjá sig þangað til þeir hefðu fengið endanlega greiningu. Þeir hafi látið yfirfara kvíarnar og ekkert óeðlilegt hafi komið í ljós.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is