Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
13. apríl 2016

Strandsvæðin eins og villta vestrið

Strandsvæðin eru eins og villta vestrið, segir formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða. Samtökin lýsa yfir andstöðu sinni við fyrirhugað laxeldi í Jökulfjörðum og gagnrýna skipulagsleysi strandsvæða. Arnarlax hefur óskað eftir leyfi fyrir tíu þúsund tonna fiskeldi í Jökulfjörðum.

 

Vilja að staldrað verði við

Bolungarvíkurkaupstaður tilkynnti nýlega áform laxeldisfyrirtækisins Arnarlax um laxeldi í utanverðu Ísafjarðardjúpi og í Jökulfjörðum með starfsstöð í Bolungarvík. Stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða sendi í dag frá sér ályktun þar sem óskað er eftir því að staldrað verði við og gengið frá skipulagi svæðisins sem og burðarþolsmati áður en lengra er haldið.

Ósnortið land og fiskeldi fari ekki saman

Daníel Jakobsson, formaður stjórnar Ferðamálasamtakanna, segir að svæðið sé viðkvæmt og mikilvægt fyrir náttúru og sérstöðu Vestfjarða. Hann segir að ekki fari saman að markaðssetja svæði sem ósnortið en vera á sama tíma með fiskeldi. „Við erum ekki á móti fiskeldi. Við teljum að fiskeldi og ferðaþjónusta geti farið ágætlega saman. Kannski er aðalatriðið það að við getum ekki fallist á það að það sé fiskeldi alls staðar. Það er ekkert skipulag á svæðinu, enginn sem hefur skipulagsvald yfir fjörðunum. Þetta er svolítið villta vestrið og fiskeldisfyrirtækin eru að búa sér til stöðu með því að taka sér svæðin. Og við erum að kalla eftir því að það sé sest yfir þetta skipulag áður en það er of seint. Að menn ákveði hvað á að vera hvar.“

 

Skipulagsleysi haf- og strandsvæða

Ísafjarðarbær er meðal þeirra sem hefur um margra ára skeið varpað ljósi á skipulagsleysi strandsjávar. Nú er að störfum starfshópur um skiplag haf- og stransvæða á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem áformar að skila af sér tillögum til ráðherra á næstunni. Ekki fengust upplýsingar um hvað felst í tillögunum.

 

Stórfelld áform

Ferðamálasamtökin benda á í ályktun sinni að 10 þúsund tonna framleiðsluleyfi sé jafn mikið og öll þau leyfi sem að hafa verið gefin út í öllu Ísafjarðardjúpi og sé svipuð framleiðsla og í tveimur stærstu fiskvinnslunum á svæðinu. Umsókn Arnarlax felst í 10 þúsund tonna eldisleyfi í sjó á þremur stöðum í Jökulfjörðum. Milli Grunnavíkur og Flæðareyrar og hinsvegar friðlandsmegin, út af hlíðinni milli Hesteyrafjarðar og Veiðileysufjarðar.

 

Ein af burðarrásum í ímynd Vestfjarða

Samtökin vilja að Jökulfirðirnir verði verndaðir frá áformum um fiskeldi og vilja að sett verði reglugerð þess efnis að fiskeldi verði óheimilt. Í ályktuninni kemur fram að ferðaþjónar hafi sýnt fiskeldi í Ísafjarðardjúpi mikinn skilning og geri sér grein fyrir mikilvægi þess í atvinnu- og verðmætasköðuna á svæðinu en að staldra skuli við og skipulag og burðaþolsmælingar verði kláraðar áður en lengra er haldið. Samtökin telja Hornstrandafriðlandið ásamt Jökulfjörðum vera eina af burðarásum í ímynd Vestfjarða þar sem styrkleikinn er ósnortin náttúra, kyrrð og mögnuð mannlífssaga.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is