Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
8. október 2004

60 þúsund manns stunduðu einhverja lax- eða silungsveiði árið 2003

Þetta kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ um efnahagsleg áhrif lax- og silungsveiða á Ísland.

 

"Lauslega áætlað má því gera ráð fyrir að um 60 þúsund manns hafi stundað einhverja lax- eða silungsveiði árið 2003 og að veiðiferðirnar hafi alls verið 230–250 þúsund. Þar af má ætla að um 50 þúsund einstaklingar hafi lagt fyrir sig silungsveiði og um 25 þúsund rennt fyrir lax.

Þótt þessar tölur virðist háar, þar sem hér er um tæplega fimmtung þjóðarinnar að ræða, má gera ráð fyrir að mun fleiri stundi stangaveiði en hér hefur verið reiknað með, þar sem stuttar ferðir eru sjaldnast taldar með. Sem dæmi má nefna að þeir fjölmörgu höfuðborgarbúar sem stunda veiðar í vötnum á suðvesturhorni landsins telja slíka skreppitúra vart jafnast á við þriggja eða fjögurra daga ferðir á fínni veiðisvæði þar sem aðstaða öll er að jafnaði stórum betri.

 

Niðurstöður könnunarinnar gáfu auk þess til kynna að helmingi fleiri karlar en konur stundi veiði og að karlarnir fari að jafnaði mun oftar í veiði en konurnar.

 

Í norrænu könnuninni, sem gerð var um áramótin 1999/2000, voru þeir sem sögðust hafa stundað stangaveiði að einhverju marki síðustu 12 mánuðina á undan einnig spurðir um hversu marga daga þeir hefðu verið við veiðar á sama tímabili. Út frá því var áætlað að Íslendingar hefðu að meðaltali setið 7,9 daga við veiðar, sem var töluvert undir því sem tíðkaðist á hinum Norðurlöndunum. Alls var talið að veiðimenn á Norðurlöndunum hefðu haldið til veiða í 436.000 daga síðustu 12 mánuðina áður en könnunin var gerð.

 

Miðað við leyfilegan stangarfjölda á laxveiðisvæðum á Íslandi hefur verið metið að heildarframboð stangardaga í laxveiði séu um 34.000 og má ætla að það sé hámarksnýting á auðlindinni. Vísbendingar eru um að þeir dagar séu vel nýttir og lítið rúm sé til að auka laxveiðar á stöng. Aðra sögu má segja um silungsveiði en ljóst er að þar hafa möguleikar til veiða ekki verið fullnýttir."

 

Skýrsluna í heild sinni er hægt að nálgast hér sem word eða pdf skjal.