Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
7. október 2004

Ekki borið á eldislöxum

Guðni Guðbergsson fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun sagði í samtali við Morgunblaðið að ekki hefði borið á eldislöxum af norsku kyni í kjölfar slyss á Norðfirði í fyrra er fjöldi slíkra fiska slapp úr kví.

 

Í fyrrahaust veiddust sem kunnugt er þó nokkrir kynþroska hængar í Selá, Hofsá og Breiðdalsá og allt eins var þess vænst að stórar hrygnur úr Norðfjarðarslysinu myndu ganga afar stórar í íslenskar ár í sumar.

 

Guðni sagði að ekki mætti þvertaka fyrir að einhverjir laxar hefðu veiðst í sumar án þess að eftir hefði verið tekið, en ef um einhvern massa hefði verið að ræða hefðu skilað sér merki, en ekkert slíkt hefði borist til Veiðimálastofnunar líkt og gerðist í fyrra.

Hvað orðið hefði um þá laxa sem ekki gengu úr sjó í fyrra sagði Guðni erfitt að segja, en "það er ekki víst að nafni minn landbúnaðarráðherrann hafi verið alveg blankur þegar hann talaði um að þeir kynnu að synda til Færeyja, það eru nefnilega uppi kenningar þess efnis í Skotlandi og Írlandi, að eldislaxar sem sleppi, leggist bara í strauma og fylgi þeim, t.d. veiðist ekki mikið af eldislaxi sem sleppur á Bretlandseyjum í nálægum ám, þeim mun meira í Noregi," eins og Guðni komst að orði.

 

Eitt og annað

Gunnar Óskarsson formaður Stangaveiðifélags Keflavíkur telur að heildarveiði í Geirlandsá sé komin "langt yfir 400 fiska", og það sé líklega metveiði í ánni, "að minnsta kosti man ég ekki eftir svona tölum síðustu 20-30 árin sem ég hef fylgst með gangi mála þarna," bætti hann við. Hann taldi einnig að hugsanlega væri að nást metveiði úr Fossálum sem komnir eru með vel á annað hundrað sjóbirtinga og í báðum ánum væru að veiðast stórfiskar, 10 punda og stærri í nánast hverju holli.

 

Dagur Garðarsson sagði að um 300 laxar hefðu veiðst í Álftá á Mýrum, rólegheitaveiði hefði verið í þurrkunum um hásumarið, en mjög góð veiði þegar tók að rigna um haustið. Annað eins veiddist af sjóbirtingi og voru margir þeirra 4 til 6 pund, að sögn Dags.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum mbl.is (07.10.2004)